Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian hyggst fækka flugleiðum sínum milli Evrópu og Bandaríkjanna nú í haust en ákvörðunin er liður í sparnaðaráætlun stjórnenda Norwegian að því er kemur fram á vef Túrista . Félgaið hyggst fella niður tíu flugleiðir með haustinu mun ekki hefja flug á þeim aftur fyrr en næsta vor. Þar að auki mun félagið hætta endanlega að fljúga á milli Stokkhólms og Orlando og London og Las Vegas.

Fimm af þeim borgum sem Norwegian hyggst hvíla yfir vetrarmánuðina eru í leiðakerfi Icelandair en það eru Boston, Chicago, Denver, Orlando og New York en þær eru allar hluti af vetraráætlun Icelandair. Ætti ákvörðun Norwegian því að gera Icelandair eitthvað auðveldara fyrir á þessum mörkuðum en greinendur hafa áður lýst því að hluti af vandamálum Icelandair hafi falist í offramboði í flugi yfir hafið þá sérstaklega vegna Norwegian.

Þessu til viðbótar hyggst Norwegian fækka ferðum sínum til Los Angeles og mun ekki fljúga til borgarinnar frá Osló og Kaupmannahöfn í vetur.