Spurður hvað það sé við handboltann sem heilli hann segir Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handboltla, að hann hafi í raun alltaf verið að elta ákveðinn draum. „Ég er búinn að vera í handbolta síðan ég var átta ára gamall og eignaðist draum á þeim aldri, þegar ég var að hlusta á beinar lýsingar í útvarpinu, að verða landsliðsmaður í handbolta. Ég lét þann draum rætast því ég fór á eftir honum. Ég var orðinn landsliðsmaður um tvítugt og fór á mína fyrstu Ólympíuleika í Los Angeles árið 1984.

Þá eignast ég annan draum um hvað yrði svakalega gaman að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. Ég sá önnur lið standa á pallinum og þá einhvern veginn langaði mig til að upplifa það. Þetta hefur verið það sem ég hef talað um á fjölda fyrirlestra þar sem ég er að ráðleggja fólki að eignast draum og fara á eftir honum. Það er það sem ég sé þegar ég horfi á þetta eftir á að byrjunin á einhverju er að eignast draum. Síðan upplifi ég það 24 árum eftir Ólympíuleikana í Los Angeles að við förum til Peking þar sem við vinnum silfurverðlaun.

Ég hef hugsað það eftir á að þar tapar maður úrslitaleik sem er venjulega ekkert gaman þó það hafi verið frábær árangur að vinna silfur. Síðan er ég í Þýskalandi árið 2014 með allt til alls, frábært lið, frábæra leikmenn, búinn að byggja liðið upp í tvö ár og allt farið að ganga mjög vel og okkur leið vel. Þá hafa Danir samband við mig. Ég fattaði það ekki fyrr en um daginn af hverju ég tók við Dönum. Það var draumurinn um gullið, ég ætlaði að ná gulli á Ólympíuleikum. Ég hafði eignast þann draum og var alltaf að fara á eftir honum. Ég fattaði þetta raunverulega ekki fyrr en ég fór að setja þetta í samhengi fyrir sjálfum mér.“

Vonbrigðin í London

Spurður um hverjar séu eftirminnilegustu stundirnar á ferlinum segir Guðmundur að erfitt sé að gera upp á milli þeirra verðlauna sem hann hefur unnið í gegnum tíðina. Spurður hver mestu vonbrigðin á ferlinum segir Guðmundur að líklega sé það tapið gegn Ungverjum í átta liða úrslitum Ólympíuleikanna árið 2012 í London. „Við vorum með algjörlega frábært lið. Við unnum alla leikina í riðlinum meðal annars á móti Frökkum og Svíum. Ég hélt í raun að við værum að fara að verða Ólympíumeistarar. Á Ólympíuleikunum er það hins vegar þannig að leikurinn í 8 liða úrslitum er lykilleikurinn.

Við spiluðum við Ungverja og í tvíframlengdum leik og þá töpum við á endanum eftir að hafa verið með þetta í höndunum. Ég gæti aldrei horft á þennan leik aftur. Mér líður mjög illa gagnvart þessum leik og ég held að allir leikmennirnir hafi upplifað það á sama hátt. Þetta voru ólýsanleg vonbrigði fyrir mig og ég átti mjög erfitt með að jafna mig á þessu öllu saman. Ég man að ég vildi bara fara strax út úr Ólympíuþorpinu. Ég gat ekki verið þar sekúndu lengur eftir að þetta var búið að gerast. Þannig að ég vildi fara beint heim og fékk flug strax um kvöldið sem var mjög óvenjulegt þar sem leikurinn var um miðjan dag. Ég var bara farinn, gat ekki verið þarna. Ég fór heim hingað til Íslands, var hér í nokkra daga og man ekki einu sinni eftir því hvar ég var.“

Nánar er rætt við Guðmund í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .