Verði ásókn í nýjar lóðir sem Hafnarfjarðarbær hefur auglýst eftir væntingum hyggst bærinn hafa útdrátt um hluta lóðanna. Auglýsing birtist um um 69 lóðir í nýju og svokölluðu vistvænu íbúðahverfi í Skarðshlíð, sem liggur sunnan og vestan Ásfjalls, að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Þetta gildir aðeins um hluta lóðanna, ekki allar,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar um úrdráttinn. „Við seljum 13 einbýlishúsalóðir og 18 parhúsalóðir á föstu verði í lóðaúthlutun og verði eftirspurnin meiri en framboðið verður dregið um það hver fær lóð.“

Til viðbótar er um að ræða 26 tvíbýlishúsalóðir og 12 raðhúsalóðir, en þar ráði hæsta boð, yfir tilsettu lágmarksverði.

Nýr skóli tekur til starfa í haust

Um er að ræða annan áfanga nýs hverfis við Vellina í Hafnarfirði.

„Í fyrsta áfanga, sem við buðum út fyrir áramót, voru boðnar út fjölbýlishúsalóðir. Gríðarlegur áhugi var fyrir þeim og búumst við, við öðru eins núna en víða eru framkvæmdir hafnar á lóðum sem fóru í fyrsta áfanga,“ segir Rósa en fljótlega verði farið í þriðja áfanga sem búist er við að verði skipulagður á svipaðan hátt.

Rósa segist búast við mikilli þátttöku í báðum áföngum enda lítið framboð verið á einbýlis- og parhúsalóðum. Þar sem hverfið er nær Hvaleyrarvatni en núverandi byggð sé þegar í undirbúningi uppbygging nýs skóla fyrir hverfið.„Uppbyggingin er mikil og fyrsti áfangi Skarðshlíðarskóla verður tekinn í notkun næsta haust enda orðið löngu tímabært að létta á Hraunvallaskóla, sem er orðinn einn fjölmennasti skóli landsins.“