Gistinætur á hótelum í júní voru 392.900 sem er 6% aukning miðað við júní 2016. Í fyrra fjölgaði gistinóttum um 28,4% í júnímánuði miðað við sama tímabil árið 2015. Um 55% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 217.800, sem er 3% aukning ef tekið er mið af sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Gistinætur á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 23.000 og á Austurlandi voru þær 16.200, sem í báðum tilvikum er 3% samdráttur frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurnesjum voru 25.800, sem er 55% aukning frá fyrra ári, en einnig var 11% aukning á Suðurlandi, þar sem gistinætur voru 73.200.

Á tólf mánaða tímabili frá júli 2016 til júní 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.165.000 sem er 27% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Herbergjanýting í júní var 81% sem er lækkun um 0,5% frá júní 2016 þegar hún var 81,5%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,5% mælt í fjölda herbergja. Nýting var best á höfuðborgarsvæðinu, eða um 87,6%.