Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, hefði viljað sjá hraðari lækkun bankaskattsins , sem lækkar úr 0,376% í 0,145% í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2020 til 2023. Það er óbreytt ástand frá fjármálaáætlunum síðustu tveggja ára. Hún hefði viljað sjá lækkuninni flýtt. „Samkeppnisstaða bankanna er mjög skökk því þetta leggst á allar skuldir þeirra en ekki á skuldir keppinautanna, til dæmis á húsnæðislánamarkaði. Það getur ekki talist hluti af heilbrigðu samkeppnisumhverfi,“ segir Katrín.

„Bankarnir eru þar að auki að greiða mikinn arð en til lengri tíma litið mun þetta minnka virði bankanna. Það ætti frekar að horfa til arðgreiðslnanna sem ríkissjóður fær heldur en skattsins. Ríkið á tvo af þremur bönkum og það að rýra svona virði þeirra eins og við höfum sýnt fram á að skatturinn geri vekur upp þá spurningu hvort eignanna sé gætt með sem bestum hætti,“ segir Katrín. Þá sé skatturinn ekki til þess fallinn að draga erlenda banka inn á íslenskan bankamarkað, því allar sérreglur gætu dregið úr áhuga þeirra til að koma inn á íslenskan markað. „Allar séríslenskar reglur kosta samfélagið,“ segir Katrín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .