Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í jólapistli sínum , að ágreiningur verkalýðsfélaganna um aðferðir, veiki hana ekki í baráttunni fyrir bættum kjörum.

VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness. hafa ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara á meðan önnur verkalýðsfélög vilja reyna áfram að semja beint við samtök atvinnurekenda, en kjarasamningarnar á almennum vinnumarkaði renna út um áramótin.

„Þegar samninganefndir ólíkra félaga eru með misjafnt mat á stöðunni er hreinlegast að leiðir skilji en það er alveg ljóst að kröfugerðirnar eru ekki breyttar og öll félögin hafa samþykkt þær og vinna út frá þeim. Styrkur okkar liggur í samstöðunni um kröfugerðirnar og um alvöru aðgerðir í þágu launafólks. Ágreiningur um aðferðir veikir okkur ekki. Við vinnum áfram sem ein heild að þeim málum sem ASÍ hefur haft forgöngu um, þ.e. stefnu í skattamálum, húsnæðismálum og stefnu um aðgerðir gegn félagslegu undirboði (réttara nafni glæpastarfsemi á vinnumarkaði), svo stóru málin séu nefnd," segir Drífa í pistlinum.

Risavaxin verkefni bíði á næsta ári. „Verkefni sem allir eru einbeittir í að vinna að; betri kjörum fyrir vinnandi fólk og sanngjarnari skiptingu verðmæta. Það krefst þess að leyst verði úr húsnæðisvandanum og að breytingar á skattkerfinu verði þannig að allir leggi sinn skerf í sameiginlega sjóði. Það er löngu tímabært að láglaunafólk þurfi ekki að bera þyngstu byrðarnar á meðan þeir bestu settu eru stikkfrí. Kjarasamningarnir þurfa svo að endurspegla þá sjálfsögðu kröfu að fólk geti unnið fyrir sér án þess að ganga sér til húðar," segir Drífa.