Í yfirlýsingu á vef Alþýðusambandsins hvetur Drífa Snædal, formaður Alþýðusambands Íslands lesendur til að kynna sér starfsemi BDS hreyfingar sem talað hefur fyrir algerri sniðgöngu og viðskiptaþvingunum á Ísrael. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hyggjast Færeyingar opna sendistofu í umdeildri höfuðborg landsins, Jerúsalem, fyrst Evrópuþjóða.

Jafnframt segir Drífa, sem fer fyrir stærstu aðildarsamtökum launþega í landinu, þar sem í eru um 133 þúsund manns, eða tveir þriðju alla launamanna í landinu að líkja megi stöðu arabísku heimastjórnarsvæðanna „við stöðu blökkumanna í Suður Afríku þegar aðskilnaðarstefnan var þar við lýði".

BDS stendur fyrir boycott, divestment and sanctions á enskri tungu, sem þýða má sem sniðgöngu, þar á meðal í menningar- og íþróttasamskiptum, afturköllun fjárfestinga og viðskiptaþvinganir, en samtökin vilja að ríki heims skapi þrýsting á Ísrael að láta undan kröfum Palestínumanna í deilum þjóðanna um landamæri og stöðu heimastjórnarinnar.

Gagnrýnendur BDS segja á móti á að fimmtungur ísraelsku þjóðarinnar séu arabar og í landinu búi og starfi gyðingar og arabar í auknum mæli hlið við hlið án aðskilnaðar og líkja aðferðum samtakanna við aðferðir gyðingahatara í gegnum söguna og það sé ekki til þess fallið að koma á friði þegar tveir deila að þrýsta einungis á annan aðilann.

Drífa segir arabíska íbúa umdeildu svæðanna á Vesturbakkanum (Júdea og Samaría er heiti Ísrael yfir svæðið), sem fái þau fáu atvinnuleyfi sem hún segir Ísrael gefa út, gjarnan gegn hárri greiðslu til miðlara, búa við erfiðan og langan ferðatíma til vinnu, vinna hættulegustu og lægst launuðu störfin í Ísrael.

„Palestínskar konur eru heppnar ef þær fá vinnu yfir höfuð. Palestínumenn mega bara keyra á verri götunum, þeir hafa ekki aðgang að eigin vatnsbólum, ferðafrelsi þeirra er háð Ísraelsmönnum og ef þeir tjá sig um ranglætið getur frelsið verið skert enn frekar. Þetta er staða þeirra sem búa á Vesturbakkanum, staða Palestínumanna á Gaza er miklu verri enda það svæði kallað stærsta fangelsi í heimi,“ segir Drífa meðal annars á vef ASÍ.

Yfirlýsingin sem er með fyrirsögninni: Drífa Snædal - Með Palestínumönnum gegn kúgun, kemur í kjölfar ferðar sem ASÍ skipulagði fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa sína, þar sem hitt var á palestínsk systursamtök, friðar- og kvennasamtök sem og palestínsk stjórnvöld sem og „fjölda annarra sem vinna að því að ljúka upp augum heimsins fyrir ástandinu og vinna að bættum hag“ eins og þar segir.

Deilan fyrir botni Miðjarðarhafsins á sér langa sögu hjaðningarvíga á báða bóga, þar sem í blandast deilur um land, trú, stjórnskipan og helgustu staði helstu þriggja eingyðistrúarbragða heims. Þess má geta að forystumaður nefndar SÞ sem setti fram sáttatillögu árið 1947 um skiptingu landsins milli þjóðarbrotanna tveggja, araba og gyðinga sem búið hafa í landinu um aldir, en tókst ekki að skapa sátt því einungis Ísraelsríki var stofnað í kjölfarið, ekki ríki araba, var undir forystu sendiherra Íslands hjá samtökunum, Thor Thors.