Nýverið hefur borið á því að tilkynningar berist um dularfullar sendingar frá Salómonseyjum sem viðtakendur vita engin deili á. Hafa þessar sendingar skapað líflegar umræður hjá ýmsum Facebook hópum sem tengjast verslun á netinu og hafa margskonar kenningar verið settar fram.

„Við hjá Póstinum erum meðvituð um málið og góðu fréttirnar eru þær að hér er ekkert hættulegt á ferð. Pakkar frá Ali Express eru sendir í gegnum Salómonseyjar þar sem það er ódýrasta leiðin til Íslands. Ef einhverjir hafa keypt vöru á Ali Express á síðastliðnum 1-2 mánuðum eru allar líkur á að um sé að ræða pakkann sem viðkomandi pantaði,“ segir Kristín Inga Jónsdóttir, markaðsstjóri Póstsins, í fréttatilkynningu um málið.

„Mikilvægt er að passa upp á að bera saman sendingarnúmerið sem viðkomandi fékk sent frá Ali og sendingarnúmerið í tilkynningunni frá okkur til að vera viss um að þetta sé sendingin sem beðið er eftir. Ef viðkomandi hefur fengið tilkynningu um pakka frá Salómonseyjum en er ekki að bíða eftir pakka frá Ali er gott að hafa samband við þjónustuver Póstsins og við skoðum málið,“ bætir hún við.

Í tilkynningunni segir Kristín að í einhverjum tilvikum sé um tóma pakka að ræða og er fylgst sérstaklega vel með því. Ef grunur leikur á að pakkar séu tómir séu þeir teknir úr umferð. „Ef viðskiptavinir sjá á Mínum síðum Póstsins eða í appinu að sendingin sem þeir hafa fengið tilkynningu um er óvenju létt gæti verið gott að hafa samband við þjónustuverið. Við mælum raunar með því að viðskiptavinir okkar hafi samband við þjónustuver Póstins ef þeir eru að fá dularfullar sendingar frá Salómónseyjum,“ er haft eftir Kristínu.