Krónan hefur styrkst nánast samfellt frá árinu 2014 - en frá áramótum hefur gengið verið nokkuð sveiflukennt, þó að það hafi styrkst, um 3,5% miðað við gengisvísitölu. Síðustu vikur hefur krónan þó veikst talsvert eða um 6% í þessum mánuði gagnvart evru. Í greiningu Arion banka er bent á að gengisveikingin síðustu vikur er ágæt áminning um að fjölmargir þættir aðrir en ferðamenn hafa áhrif á krónuna og að mjög erfitt er að spá fyrir um gengi hennar sér í lagi til skemmri tíma.

Flestir greiningaraðilar gerðu ráð fyrir því að krónan myndi styrkjast í sumar. Helsta ástæðan fyrir þeim væntingum er gríðarleg fjölgun ferðamanna og háannatími í ferðaþjónustu. Til að mynda gerir ISAVIA ráð fyrir um 744 þúsund erlendum ferðamönnum til landsins í júní til ágúst, eða fleiri en komu til landsins árið 2012.

Lítill gjaldeyrismarkaður og lítil gjaldeyrisinngrip

Greiningadeild Arion banka segir það virðist blasa við að lítill gjaldeyrismarkaður valdi þessum miklu gjaldeyrissveiflum síðustu vikur. Krónan er pínulítill gjaldmiðill, og því geta lítil viðskipti haft mikil áhrif á verðmyndun hennar frá degi til dags. Hversu lítil veltan er hefur enn fremur þær afleiðingar að sveifla innan dags sé oft mikið. Til að mynda veiktist gengi krónu gagnvart evru um 2,4% en gekk sú veiking að mestu til baka og nam veikingin yfir daginn um 0,4%.

Að mati greiningaraðila hefur það ýkt sveiflurnar að Seðlabanki Íslands hafi að mestu leyti haldið að sér höndum hvað varðar gjaldeyrisinngrip og er hættur að vera virkur í gjaldeyrisforðasöfnun. hann hafi að jafnaði ekki brugðist jafn mikið við mikilli gengisveikingu og hann hefur brugðist við gengisstyrkingu, þó að opinbert markmið gjaldeyrisinngripa sé að jafna sveiflur, óháð því í hvora áttina þær eru. Það hefur þó sýnt sig síðustu ár að geta eða kannski vilji Seðlabankans til að leggjast gegn gengissveiflum er takmörkuð. Miðvikudagur í síðustu viku er gott dæmi. Þá veiktist krónan um hátt í 2% gagnvart helstu myntum, þrátt fyrir að Seðlabankinn legðist á móti og seldi gjaldeyri fyrir um 2,5 milljarða króna og stóð undir nærri helmingi veltu á gjaldeyrismarkaði þann dag, segir í greiningu Arion banka.