Skoski hrúturinn Double Diamond, sem er af tegundinni Texel, er orðinn dýrasti hrútur allra tíma, eftir að hafa verið seldur á hátt í 368 þúsund pund á uppboði, eða sem nemur tæplega 68 milljónum króna. BBC segir frá þessu en í frétt miðilsins má sjá myndband af hrútinum rándýra.

Hrúturinn, sem er sex mánaða gamall, var seldur í skoska smábænum Lanark. Bóndi að nafni Charlie Boden seldi hrútinn til fjárfestahóps sem samanstendur af nokkrum kindabændum.

Á uppboðinu nam opnunartilboðið í hrútinn 10 þúsund pundum en fljótlega upphófst mikið verðstríð milli nokkurra aðila, en fyrrnefndur hópur bænda hreppti að lokum hnossið.

Áður en umræddur hrútur varð sá dýrasti frá upphafi, var sá dýrasti í sögunni seldur á 230 þúsund pund árið 2009.