Breska fjármálaráðuneytið og neyðarsjóður Englandsbanka vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur veitt lággjaldaflugfélaginu EasyJet 600 milljóna punda lánveitingu, eða sem nemur ríflega 106,2 milljörðum íslenskra króna.

Þess utan hyggst félagið leitast eftir að fá andvirði 500 milljona Bandaríkjadala, andvirði  ríflega 400 milljóna punda, það er nærri 72 milljarða króna, frá einkaaðilum til að tryggja lausafjárstöðu sína. Félagið hefur náð samningum um að tæplega helmingur flugáhafna þess fari í launalaust frí í tvo mánuði.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur Icelandair hafið vinnu við að tryggja að lausafjárstaða þess fari ekki undir 30 milljarða, enda flugfélög víða um heim að sækja aðstoðar stjórnvalda vegna ástandsins sem myndast hefur vegna útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

Eigandi þriðjungshlutar í EasyJet, Haji-Ioannou og fjölskylda hans höfðu kallað eftir neyðaraðalfundi og að tveir framkvæmdastjórar félagsins yrðu látnir fara.

Heldur hann áfram baráttu sinni gegn stjórn félagsins og ákvörðun þeirra um að panta 107 „ónothæfar“ flugvélar frá Airbus fyrir 4,5 milljarða punda. Guardian segir félagið vera í samningaviðræðum við Airbus vegna pöntunarinnar.

Framkvæmdastjóri easyJet, Johan Lundgren segir markmiðið nú vera að daga úr kostnaði en tryggja að staða félagsins verði sem best þegar heimsfaraldrium sé lokið. Segir hann að félagið hafi náð samningum við verkalýðsfélög um að um 4 þúsund manns í flugáhöfnum félagsins fari í launalaust frí af um 9 þúsund í heildina í apríl og maí.