Breska flugfélagið easyJet hyggst setja upp nýtt fyrirtæki til að vernda viðskipti sín innan Evrópu eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu. Nýtt félag mun heita easyJet Euorpe og mun vera með höfuðstöðvar sínar í Vín í Austurríki. Þetta kemur fram í frétt BBC .

EasyJet hefur gefið það út að umsókn þeirra um flugrekstrarleyfi í Austurríki sé vel á veg komin og vonast fyrirtækið eftir að fá leyfið í náinni framtíð. Hefur fyrirtækið gefið það út að frá sjónarhorni farþega muni ekkert breytast með tilkomu nýs félags. Flugvélar og starfsfólk nýs félags væri nú þegar að störfum innan þeirra 27 landa ESB þar sem easyJet er með starfsemi.

Félagið greindi frá því á síðasta ári að það hygðist stofna nýtt félag á meginlandinu til þess að bregðast við útgöngu Bretlands úr ESB. Ástæðan er sú að hætta er á því að Bretland missi rétt sinn til frjálsra flugferða innan lofthelgi ESB. Frá árinu 1994 hafa bresk flugfélög getað flogið á milli hvaða tveggja staða sem er innan Evrópu.