Edda Hermannsdóttir, hagfræðingur og samskiptastjóri Íslandsbanka, mun á næstu dögum taka við greiningu bankans. Hún verður yfirmaður nýrrar deildar, sem nefnist „Samskipti og greining". Eins og nafnið gefur til kynna verður unnið að greiningarstarfi á þessari deild en einnig mun hún sjá um framleiðslu á fræðsluefni fyrir vef og sjónvarp og þá heyra samskiptamál bankans einnig undir nýju deildina.

„Við höfum verið að fara nýjar leiðir í greiningar og fræðslustarfi bankans meðal annars með framleiðslu á myndböndum sem hafa fengið mjög góðar viðtökur," segir Edda í samtali við Viðskiptablaðið.  „Við erum því spennt að móta starfið áfram á árinu og gera óhefðbundna hluti.”

Edda hefur starfað hjá Íslandsbanka síðan sumarið 2015 þegar hún var ráðin samskiptastjóri. Þar áður starfaði hún sem blaðamaður og aðstoðarritstjóri á Viðskiptablaðinu og einnig sem dagskrárgerðarmaður á RÚV. Fyrir tæpu ári síðan gaf hún út viðtalsbókina Forystuþjóð, en bókina skrifaði hún með Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur.

Töluverðar skipulagsbreytingar hafa verið innan Íslandsbanka frá því síðasta haust. Þá var starfsmönnum fækkað um tuttugu og í gær var síðan greint frá því að Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar, hefði sagt starfi sínu lausu.