Edda Jónsdóttir hefur hafið störf hjá Póstinum og gegnir stöðu markþjálfa á mannauðssviði félagsins. Hún hefur starfað síðastliðinn áratug sem leiðtogamarkþjálfi fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins auk nokkurra minni fyrirtækja, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Póstsins. Edda hefur einnig unnið við verkefnastjórnun og framleiðslu fjölmiðlaefnis, meðal annars fyrir Ríkisútvarpið.

„Markþjálfun gengur út á að efla fólk til að taka ábyrgð á sjálfu sér. Þetta er skapandi ferli sem gerir fólki kleift að takast á við áskoranir og setja sér markmið sem geta orðið að veruleika. Öflugir leiðtogar búa yfir jákvæðu viðhorfi sem skilar sér í árangursríku starfi. Ég er þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt á vettvangi Póstsins og finnst spennandi að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að styðja við einstakan starfsmannahóp,“ er haft eftir Eddu í fréttatilkynningu.

Hún lauk alþjóðlegu CPC prófi í markþjálfun frá Markþjálfunarakademíunni í Mentone í Ástralíu. Akademían er í hópi þeirra skóla sem nýtur vottunar Alþjóðamarkþjálfunarráðsins (International Coaching Federation).

Í tilkynningunni segir að Edda hafi einnig lokið sérþjálfun í fjármálatengdri markþjálfun og undirmeðvitunarfræðum hjá „virtum mentorum“ í Bandaríkjunum. Hún er með M.A. gráðu í ábyrgri stjórnun frá Steinbeis háskóla í Berlín, gráðu á meistarastigi í mannréttindafræðum frá Bolognaháskóla á Ítalíu og B.A gráðu í fjölmiðlafræði og ítölsku frá Háskóla Íslands.

„Ég er ótrúlega ánægð að fá eins frábæran starfskraft og Eddu til liðs við okkur. Við höfum verið að vinna markvisst að því að byggja upp öfluga leiðtogamenningu sem miðar að því að bæta frammistöðu og auka vellíðan og árangur starfsfólks. Það eru gríðarleg tækifæri í því að hafa starfandi markþjálfa hjá félaginu og að hafa fengið Eddu um borð hjálpar okkur að setja enn skýrari fókus á það sem skiptir máli. Við sjáum hana sem algera lykilmanneskju til framtíðar,“ segir Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri Póstsins.