Hefðbundin skuldabréfaútgáfa í eðlilegum rekstrarlegum tilgangi eða óvenjulegur gjörningur sem er að vettugi virðandi í skattskilum? Það er spurningin sem liggur fyrir dómara í málum Brimgarða ehf., 14. júní ehf. og Langasjávar ehf. gegn íslenska ríkinu. Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.

Í janúar 2005 gáfu Brimgarðar út átta verðtryggð skuldabréf, hvert að nafnvirði 200 milljónir króna, til Kaupþings Bank Luxembourg. Bréfin, sem voru á gjalddaga í janúar 2020, voru í íslenskum krónum og með ávöxtunarkröfuna 10,75%. Í júlí sama ár gaf 14. júní út tíu óverðtryggð skuldabréf til sama banka en hvert og eitt þeirra var að nafnvirði 100 milljónir króna. Bréfin báru ekki vexti en ávöxtunarkrafa þeirra var 15%. Gjalddagi fyrsta bréfsins var tíu árum síðar en síðan gjaldfellur eitt bréf á ári allt til 2024.

Bæði félögin gjaldfærðu hjá sér afföll bréfanna í bókum sínum en Brimgarðar gjaldfærðu að auki verðbæturnar. Árið 2013 hóf Skatturinn, þá Ríkisskattstjóri, athugun á skattskilum félaganna en henni lauk með endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2008-2012. Að mati Skattsins þótti skuldabréfaútgáfan verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, bæru einkenni þess að teljast til skattasniðgöngu og því að vettugi virðandi. Afföllin og verðbæturnar uppfylltu því ekki skilyrði til að teljast frádráttarbær frá tekjum.

Afleiðingin var sú að tekjuskattstofn Langasjávar, sem var samskattað með dótturfélögum sínum, hækkaði um rúmar 526 milljónir króna og við það bættist 25% álag, tæplega 132 milljónir króna. Þá lækkaði yfirfæranlegt rekstrartap vegna gjaldáranna 2009-11 um tæplega 720 milljónir króna. Yfirskattanefnd (YSKN) staðfesti síðan niðurstöðu Skattsins að stærstum hluta en álagið var fellt niður þar sem því hafði aðeins verið beint að móðurfélaginu en ekki dótturfélögin. Dómsmálin nú voru höfðuð til ógildingar á úrskurðum Skattsins og YSKN.

Sín hvor aðferð að sama brunni

Í máli Stefáns Geirs Þórissonar, lögmanns félaganna, fyrir dómi var því alfarið hafnað að um skattasniðgöngu hefði verið að ræða. Til að gjörningur félli þar undir þyrfti hann að vera gerður í þeim eina tilgangi að komast hjá því að greiða skatt. Þær aðstæður væru ekki fyrir hendi hér enda lægi ljóst fyrir að skuldabréfaútgáfan hefði verið í rekstrarlegum tilgangi. Brimgarðar hefðu nýtt féð til þess kaupa tvær fasteignir og haft af þeim leigutekjur síðan. 14. júní hefði brúkað sitt fé til þess að kaupa Síld og fisk ehf.

„Það vekur einnig athygli að í úrskurðum YSKN er enginn greinarmunur gerður á skuldog gjaldfærslu affalla og verðbóta sem reiknaðar eru af höfuðstól,“ sagði Stefán og taldi þar vera efnisannmarka á úrskurðunum. Í tilfelli affallanna þyrfti að tilgreina kaupanda skuldabréfsins – gilti þá einu hver handhafi bréfanna væri – og slíkt væri ekki skilyrði hvað verðbæturnar varðaði. Þá lægi í málinu fyrir álit dr. Hersis Sigurgeirssonar, sem að vísu var aflað einhliða, um að kjörin á skuldabréfunum hefðu verið hefðbundin á þessum tíma.

Hersir hafði ekki verið dómkvaddur sem matsmaður í málinu en um tíma var deilt um það hvort heimilt væri að hann gæfi vitnaskýrslu í málinu. Því var hafnað með úrskurðum héraðsdóms, og síðar Landsréttar, þar sem sú regla gildi á Íslandi að vitni geti aðeins veitt framburð um atvik máls að eigin raun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .