Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum fyrr í dag frumvarp um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (29/1993), bifreiðagjald (39/1988) og virðisaukaskatt (50/1988) með það að markmiði að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við álagningu skatta og gjalda á ökutæki sem að óbreyttu hefðu komið til framkvæmda þann 1. janúar næstkomandi.

Helstu breytingar eru þær að lagðar eru til breytingar á viðmiðum koltvísýringslosunar við álagningu vörugjalds á ökutæki og bifreiðagjalds auk þess sem gert er ráð fyrir að skilgreining sendibifreiðar verði lagfærð, vörugjaldi af tilteknum ökutækjum til vöruflutninga verði breytt, vörugjald af golfbifreiðum verði samræmt markmiðum um orkuskipti og að gerðar verði breytingar í því skyni að treysta hagsmuni ríkissjóðs við veitingu ívilnana.

Bílgreinasambandið lagði í haust fram breytingartillögur á upprunalegum frumvarpsdrögum sem efnahags- og viðskiptanefnd tók til meðferðar og hefur samþykkt í öllum meginatriðum með fram komnum breytingum á frumvarpinu. Að mati Bílgreinasambandsins eru breytingarnar afar jákvæðar fyrir þróun bílgreinarinnar og afkomu ríkissjóðs enda nema tekjur ríkisins af vörugjöldum og virðisaukaskatti af nýjum bílum milljörðum króna á ári hverju. Um leið eru breytingarnar jákvæðar í umhverfislegu tilliti.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, fagnar niðurstöðu efnahags- og viðskiptanefndar og fyrir það samráð sem haft var við Bílgreinasambandið um málið. Gert er ráð fyrir að málið fari nú til þriðju umræðu á Alþingi og atkvæði greidd á næstu dögum. „Við gerum fastlega ráð fyrir að frumvarpið fari óbreytt í gegn enda eru miklir hagsmunir í húfi. Verði mótvægisaðgerðirnar sem frumvarpið felur í sér að veruleika munu nýir bílar því aftur lækka í verði þar sem áhrif af breyttum mæliaðferðum munu í flestum tilvikum jafnast út. Þessi aðgerð mun því styðja við endurnýjun bílaflotans og hafa jákvæð áhrif á verðlag þar sem bílar skipta máli í vísitölumælingum,“ segir María Jóna.

„Bílgreinasambandið fagnar því að fjármálaráðuneytið og efnahags- og viðskiptanefnd hafi brugðist við ábendingum sem fram hafa komið af hálfu sambandsins. Það er mikilvægt fyrir neytendur að nýjasta tækni og mesta öryggi sé það sem boðið sé upp á hverju sinni. Með því að miða vörugjöld við nýjar mælingar og jafna stöðu þeirra við eldri mælingar næst það markmið að hagstæðasti valkosturinn sé um leið besti kosturinn fyrir umhverfið. „Ég geri því nú ráð fyrir því að bílverð sem farið hefur hækkandi á undanförnum vikum vegna vörugjaldahækkana muni að mestu leyti ganga til baka enda samkeppnin hörð á markaðnum,“ segir María Jóna.