Með átakinu er vonast til þess að fólk temji sér nýjar venjur við daglegt amstur og reyni eftir fremsta megni að sneiða hjá plastnotkun eða í það minnsta minnka hana allverulega. Á facebook-síðunni Plastlaus september sem heldur utan um átakið má finna frábær ráð til þess að minnka plastnotkun sem og fróðleik um skaðsemi plastsins. Fólk getur enn skráð sig í átakið á www.plastlausseptember.is

Af hverju eigum við að sleppa plasti?
Plast endist í þúsundir ára og er því afar slæmur kostur fyrir einnota notkun. Plast brotnar niður á mjög löngum tíma og þá í örplast sem ekki er betra fyrir umhverfið. Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af minni gæðum. Allt plast sem við notum og fer ekki til endurvinnslu, safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð. Plast endar alltof oft í náttúrunni, og þá sérstaklega í ám, vötnum og sjó. Plast dregur til sín ýmis mengunarefni og þegar það endar í vef lífvera geta efnin þar með endað í fæðu okkar. Mjúkplast inniheldur stundum hormónaraskandi efni (t.d. þalöt) sem eru skaðleg mannfólki.

Vakning víða
Bæði má sjá og finna í samfé- laginu aukna vakningu þegar kemur að því að minnka notkun plasts. Hafa margar verslanir sem dæmi hætt notkun plastpoka og bjóða nú upp á bréfpoka. Samkaup hefur tekið átakið skrefinu lengra og hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum að koma með plastpoka í allar verslanir fyrirtækisins og skipta þeim út fyrir fjölnotapoka. Átakið fer vel af stað og verður áberandi í verslunum um land allt. „Við höfum tekið upp 50.000 fjölnota poka og komið upp sérstökum móttökustöðvum í verslunum okkar. Með því viljum hvetja fólk til að koma með plastpoka til okkar. Fyrir hverja þrjá plastpoka sem fólk skilar inn í verslanir okkar, fær við- komandi einn fjölnotapoka. Við sjáum svo að sjálfsögðu til þess að plastpokarnir fari á réttan stað, beint í endurvinnslu. Með þessu viljum leggja okkar af mörkum við að draga almennt úr notkun plastpoka,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson,framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa í fréttatilkynningu.

Hugsum út fyrir kassann
Með átakinu er fólk hvatt til þess að hugsa út fyrir kassann við daglegt amstur eins og að versla í matinn en talið er að matarinnkaup séu mesta uppspretta einnota plasts sem fellur til á íslenskum heimilum. Hér má sjá nokkur ráð til að sporna við því:

Notum margnota poka í stað plastpoka við innkaup, eða pappakassa.

Veljum vöru í pappaumbúðum frekar en plastumbúðum.

Sleppum því að setja grænmetið í plastpoka í grænmetisdeildinni eða tökum með okkur margnota poka að heiman.

Veljum grænmeti og ávexti sem er ekki pakkað í plast.

Kaupum stærri einingar ef við getum. Þá er hlutfall umbúðanna yfirleitt minna miðað við innihaldið. Á sama tíma þurfum við að varast það að kaupa meira en við þurfum og stuðla þannig að matarsóun.

Á leið um Efstadal við Laugarvatn er tilvalið að kaupa skyr í pappaumbúð- um eins og í gamla daga.

Veljum mjólkurvörur í fernum en ekki í plasti.

Kaupum það sem hægt er í eigin umbúðir, þ.e. farðu með eigið ílát og láttu fylla á – þetta er meðal annars hægt að gera í Matarbúri Kaju við Óðinstorg og á Akranesi, í Frú Laugu í Laugarnesinu og í Bændum í bænum á Grensásvegi.

Förum með eigin box í ís-, kjöt- og fiskbúðir og reynum að fá vöruna í þau í stað þess að á hana í einnota plast- eða álboxum. » Verslum við fiskbúðir sem afhenda fiskinn í pappabökkum en ekki plastbökkum, s.s. Fiskbúð Hólmgeirs.


Veljum drykki í fernum frekar en í plastflöskum.