Á meðal þrjátíu stærstu hluthafa Arion banka er eftirlaunasjóður starfsmanna bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing. Eignarhlutur eftirlaunasjóðsins er að jafnvirði tæplega 600 milljónir króna og á sjóðurinn rúmlega 0,4% hlut í bankanum. Fréttablaðið greinir frá þessu og segir að þetta megi lesa út úr lista, sem blaðið hafi séð, yfir alla hluthafa bankans frá því í síðustu viku.

Þá segir að þegar litið sé yfir fimmtíu stærstu hluthafa Arion banka nemi samanlagður eignarhlutur erlendra fjárfesta tæplega 55%. Stærstu hluthafar bankans eru, líkt og áður hefur komið fram, bandarísku vogunarsjóirnir Taconic Capital með rúmlega 23,5% hlut og Och-ZIff Capital með 9,25%.