Árið 2011 voru 16 túbur af sæði úr bandarískum karlmönnum fluttar til Brasilíu. Í fyrra voru yfir 500 sæðistúbur fluttar út. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal . Í fréttinni kemur fram að þessa auknu eftirspurn megi rekja til þess að sífellt fleiri efnaðar einstæðar konur og samkynhneigð pör kjósi að fá sæði úr bandarískum karlmönnum. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að sífellt fleiri treysta ekki brasilískum sæðisbönkum sem og þykja upplýsingarnar sem fylgja ekki fullnægjandi.

Í Wall Street Journal er m.a. rætt við Alessöndru Oliva , brasilíska konu sem valdi bandarískt sæði. Hún segir að í brasilísku sæðisbönkunum séu upplýsingarnar um sæðisgjafann mjög takmarkaðar. "Það segir einungis að viðkomandi hafi brún augu, dökkt hár, sé hrifinn af hamborgurum og í hvaða stjörnumerki viðkomandi er," segir hún og bætir við að til samanburðar hafi hún fengið 29 blaðsíðna skýrslu með upplýsingum um bandaríska sæðisgjafann.

Ríflega 95% af sæðinu sem fluttir eru inn frá Bandaríkjunum er úr hvítum karlmönnum. 52% sæðisgjafanna eru með blá augu og 64% með brúnt hár. Í frétt Wall Street Journal segir að dýrt sé fyrir brasilíubúa að kaupa sæði. Tölurnar endurspegli þá staðreynd að 80% af ríkasta fólki landsins sé hvítt á hörund.