Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur hafið að nýju framleiðslu og dreifingu á drykkjarvörum sínum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun tilkynnti félagið um að framleiðslunni hefði verið hætt.

„Ljóst er að neysluvatn austan Elliðaráa, þaðan sem vatn í framleiðslu fyrirtækisins kemur er með stenst allar kröfur um gæði vatns,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Framleiðsla og dreifing var stöðvuð tímabundið í morgun vegna óvissu um stöðu mála að hálfu Veitna ohf enda eiga viðskiptavinir Ölgerðarinnar alltaf njóta vafans.“

Kemur ákvörðunin í kjölfar frétta um að jarðvegsgerlar hefðu komist í neysluvatn í velflestum hverfum Reykvíkinga. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Eyþór Arnalds frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna, velt því upp hvort ástæðan sé skortur á viðhaldi samfara Planinu svokallaða til að rétta af fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta í borgarstjórn á móti meirihluta Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata, sem leiddur er af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, en hann hefur sagt að lærdómurinn af því að skolp lak í Faxaflóa í fimm vikur í sumar án þess að tilkynnt hefði verið um það væri að upplýsa heldur meira en minna.