Töluverðar sviptingar urðu í rekstri Arnarlax á síðasta ári. Í fyrsta skiptið slátraði fyrirtækið laxi og fékk þar með tekjur og í júlí í fyrra keypti fyrirtækið Fjarðalax og varð þar með stærsta laxeldisfyrirtæki landsins.

Kristian Matthíasson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að síðasta ár hafi verið viðburðaríkt og sameiningin við Fjarðalax skipti fyrirtækið miklu máli. Sem dæmi þá hafi um 40 manns starfað hjá Arnarlaxi fyrir sameiningu en nú séu starfsmennirnir orðnir 103.

Samkvæmt samstæðureikningi fyrir árið 2016 tapaði Arnarlax um 634 þúsund evrum í fyrra eða ríflega 75 milljónum króna, sé miðað við gengi gjaldmiðlanna um síðustu áramót.

Eignir Arnarlax eru metnar á 105 milljónir evra eða 12,5 milljarða króna. Þar af eru lífrænar eignir, seiði og lifandi fiskur í sjókvíum, metnar á 33,4 milljónir evra eða tæpa fjóra milljarða.

Kaupin á Fjarðalaxi

Í yfirliti yfir sjóðstreymi má sjá að Arnarlax greiddi um 26,6 milljónir evra fyrir Fjarðalax í byrjun júlí á síðasta ári. Þetta staðfestir Kristian. Meðalgengi evrunnar á síðasta ári var 134 krónur og miðað við það nam kaupverðið tæplega 3,6 milljörðum króna. Fjarðalax tapaði samtals 433 milljónum króna árin 2015 og 2016.  Velta félagsins jókst úr 1,7 milljarði í 2,5 á milli ára.

Fiskisund ehf. átti 95% hlut í Fjarðalaxi. Fiskisund er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Höllu Sigrúnar Hjartardóttur, sem var um tíma stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og Kára Þórs Guðjónssonar.

Samkvæmt ársskýrslunni 2016 var Arnarlax að fullu í eigu Kvitholmen AS. Stærsti hluthafinn í því félagi er norski fiskeldisrisinn SalMar, sem á 34% hlut í gegnum félagið SalMus.  Næst stærsti hluthafinn eru feðgarnir Matthías Garðarsson og Kristan, sem eiga 15%. Kristian segir að samhliða viðskiptunum með Fjarðalax í fyrra hafi Fiskisund eignast hlut í Arnarlaxi, líklega á bilinu 5 til 10%. Einar Örn situr í stjórn Arnarlax. Á þessu ári var nafni Kvitholmen AS breytt í Arnarlax AS og segir Kristian að það hafi verið gert til samræmingar.

Arnarlax hefur í dag  starfs- og rekstrarleyfi fyrir 14.500 tonna framleiðslu á ári í Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði. Kristian segir að auk þessa hafi Arnarlax sótt um leyfi fyrir 10 þúsund tonna eldi í Ísafjarðardjúpi, 10 þúsund tonna eldi í Jökulfjörðum og 10 þúsund tonna eldi í Eyjafirði.

Samkvæmt nýrri skýrslu um stefnumótun í fiskeldi verða leyfisveitingar til sjókvíeldis ákvarðaðar eftir áhættumati. Hafrannsóknarstofnunar. Samkvæmt því mati verður laxeldi ekki heimilað í Ísafjarðardjúpi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .