Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur fullveldi ekki fela í sér einangrun frá alþjóðasamstarfi og alþjóðlegum skuldbindingum á borð við EES og Schengen. Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki að eltast við kjósendur sem setji sig á móti fjölþjóðlegu samfélagi og alþjóðaviðskiptum og -samskiptum.

Aldrei hafa fleiri flokkar átt fulltrúa á Alþingi en nú, en fjöldi flokka hefur aukist jafnt og þétt frá hruni. Samhliða því hefur þrengt nokkuð að hinum gömlu hefðbundnu flokkum, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið varhluta af því.

Meðal flokka sem stofnaðir hafa verið á síðustu árum eru Viðreisn, sem varð til sem klofningur Evrópusinnaðra sjálfstæðismanna, og Miðflokkur Sigmundar Davíðs, sem fór fyrir andstöðu við þriðja orkupakkann og hefur talað fyrir endurskoðun á EES-samstarfinu. Á fullveldisdeginum 1. desember síðastliðinn var svo Félag sjálfstæðismanna um fullveldi stofnað, en líkast til hafa einhverjir þar horft hýru auga til Miðflokksins nýverið.

Fullveldi feli ekki í sér úrsögn úr EES og Schengen
Segja má að þessir tveir flokkar hafi sótt að Sjálfstæðisflokknum úr sitthvorri áttinni, en deilur um alþjóðasamstarf eru orðnar ein stærsta víglína stjórnmálanna í seinni tíð. Áslaug telur þó flokkinn hafa alla burði til þess að halda áfram að vera sá leiðandi flokkur í íslenskum stjórnmálum sem hann hafi sögulega verið.

„Það er hálf skrýtið að vera í þeirri stöðu að missa hóp úr Sjálfstæðisflokknum sem vill ganga í Evrópusambandið – en hefur almennt sömu grunngildi og við – og svo nokkru síðar ertu kominn í umræðu innan flokksins um hver sé mest á móti Evrópusambandinu. Hvort einhver sem er meira á móti því eigi þá heima allt annars staðar. Þetta er algerlega ný staða, en ég hef fulla trú á því að flokkurinn geti fangað báða hópa með einhverjum hætti. Síðan eru þarna ákveðnir hópar sem ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi lítið sameiginlegt með, sem einhverjir vilja að við einblínum á.“

Áslaug segist ekki telja að flokkurinn eigi að mæta sjónarmiðum þeirra sem vilja draga úr þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og alþjóðlegum skuldbindingum, og jafnvel segja sig frá EES-samstarfinu. „Ég er ekki sammála því að fullveldismál feli í sér að ganga úr EES og Schengen og ég held að það muni ekki skila flokknum miklum árangri að stefna í þá átt. Fullveldi þjóðarinnar – sem við höfum enn í hávegum – gerir það að verkum að við getum verið virkir þátttakendur í alþjóðasamskiptum, setið við sama borð og staðið jafnfætis öðrum og stærri þjóðum.

Við getum auðvitað tekið umræðuna um það hvernig EES-samstarfið eigi að vera og hvernig við eigum að gæta hagsmuna okkar, en við eigum ekki að flögra eins og fiðrildi á eftir einum og einum kjósanda sem er okkur ósammála. Ef fólk fer að kjósa vinstri vænginn í hrönnum og telur að það sé best fyrir íslenskt samfélag þá á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að fara til vinstri. Ef fólk telur að hér eigi ekki að vera fjölþjóðlegt samfélag sem stundar alþjóðaviðskipti og er í alþjóðsamskiptum sem styrkja okkar stöðu, þá á Sjálfstæðisflokkurinn heldur ekki að fara þangað.“

Nánar er rætt við Áslaugu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .