Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,24% í tveggja milljarða veltu Kauphallarinnar í dag. Níu af tuttugu félögum Kauphallarinnar hækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins.

Gengi fasteignafélaganna hækkuðu töluvert eftir miklar lækkanir að undanförnu. Eik hækkaði mest allra félaga eða um 6,8% í 61 milljón króna viðskiptum en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær . Reginn hækkaði um 4% í 45 milljóna veltu og Reitir um 2,2% í 212 milljóna viðskiptum. Eftir lokun markaða í gær höfðu gengi þessara þriggja félaga lækkað um 28%-43% á árinu.

Eimskip hækkaði um 2,6% í 48 milljóna viðskiptum. Flutningafyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í gær en í því kom fram að það hafi hagnast um 2,5 milljónir evra samanborið við fimm milljóna evra tap á fyrsta ársfjórðungi.

Iceland Seafood hækkaði um 2,6% í 28 milljóna viðskiptum en fyrirtækið gaf út viljayfirlýsingu um kaup á írsku fiskvinnslufyrirtæki í morgun .

Mesta veltan var á bréfum VÍS sem hækkuðu um 1,6% í 425 milljóna viðskiptum. Sjóvá hækkaði einnig um 1,3% og TM um 0,4%.

Marel lækkaði 0,3% í 142 milljóna viðskiptum og standa bréf félagsins í 711 krónum á hlut. Hagar lækkuðu 0,1% í 165 milljóna veltu.