Eik fasteignafélag skilaði 761 milljóna króna hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins, en á sama tíma í fyrra nam hagnaður félagsins 1.240 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir jókst úr 1.019 milljónum króna á fyrsta fjórðungi síðasta árs í 1.122 milljónir í ár. Hins vegar voru áhrif matsbreytinga fjárfestingareigna jákvæð um 432 milljónir í ár, en voru jákvæð um 1.038 milljónir í fyrra. Er þar helst að finna muninn milli áranna tveggja. Í tilkynningu til kauphallar segir að uppgjörið sé i takt við áætlanir stjórnenda félagsins.

Hrein fjármagnsgjöld voru 616 milljónir króna á fyrsta fjórðungi þessa árs, en voru 530 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Heildareignir félagsins námu 84.890 milljónum króna þann 31. mars 2017. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 78.926 milljónir króna sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 76.360 milljónir, fasteignir í þróun 2.104 milljónir, byggingarréttir og lóðir 449 milljónir og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 milljónir króna.

Eigin eignir námu 3.697 milljónum króna og er Pósthússtræti 2 (Hótel 1919) fært sem eigin eign þar sem í fasteigninni er annar rekstur en útleiga fasteigna og er reksturinn í eigu eins dótturfélags Eikar. Eigið fé félagsins nam 27.130 milljónum króna í lok mars 2017 og var eiginfjárhlutfall 32%. Heildarskuldir félagsins námu 54.245 milljónum króna þann 31. mars 2017, þar af voru vaxtaberandi skuldir 51.297 milljónir og tekjuskattsskuldbinding 5.126 milljónir króna.

Félagið greiddi 930 m.kr. í arð til hluthafa þann 27. apríl síðastlinn enda er það stefna stjórnar að greiða 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í arð til hluthafa. Handbært fé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins nam 1.001 milljónum króna.