Gengi hlutabréfa Eimskips hefur verið á blússandi siglingu undanfarin misseri. Til marks um það hefur gengi hlutabréfa félagsins ríflega þrefaldast frá því fyrir ári og stendur þegar þetta er skrifað í 447 krónum á hlut. Fyrir vikið nemur markaðsvirði hlutabréfa félagsins 79 milljörðum króna, en fyrir ári nam virði þess tæplega 24 milljörðum króna. Þar af leiðandi hefur markaðsvirði Eimskips hækkað um 55 milljarða króna á einu ári.

Gengi bréfa Eimskips hefur hækkað skarpt frá því að félagið gekk frá sátt við Samkeppniseftirlitið vegna samráðsbrota á árunum 2008-2013 um miðjan júnímánuð. Þá var hluturinn verðlagður á 286 krónur en á tveimur vikum hækkaði gengið ört og stóð í 377,5 krónum mánaðamótin júní-júlí. Hlutabréfaverðið tók einnig mikinn kipp í kjölfar birtingar á uppgjöri annars ársfjórðungs, þar sem hagnaður Eimskips aðlagaður fyrir áhrifum 1,5 milljarða króna samkeppnissáttar nam nærri tveimur milljörðum króna. Uppgjörið var birt skömmu fyrir lokun markaða 19. ágúst sl. og strax daginn eftir var ljóst að fjárfestar tóku vel í uppgjörið. Við lokun markaða 19. ágúst nam gengi bréfa félagsins 403 krónum á hlut en við lokun markaða degi síðar var gengið komið upp í 439 krónur á hlut eftir 8,93% hækkun. Í þessari viku hefur gengið haldið áfram að hækka og stendur í dag, sem fyrr segir, í 451 krónu á hlut.

Eimskip undirverðlagt í fyrra

Snorri Jakobsson, eigandi greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir að fyrir ári hafi hlutabréf Eimskips verið undirverðlögð á markaði og gengið verið u.þ.b. 50% lægra en verðmatsgengi. Það hafi því ekki komið honum á óvart að bréfin hafi hækkað, en þessi skarpa hækkun hafi þó verið óvænt.

Snorri bendir á að rekstrarbati hafi orðið hjá félaginu frá því að Vilhelm Már tók við stjórnartaumunum, en gengi hlutabréfanna sé orðið töluvert hærra en síðasta verðmatsgengi Jakobsson Capital, sem var 263 krónur á hlut. Hann segir ljóst að verðmatsgengið muni hækka töluvert í næsta verðmati, en nákvæmlega hversu mikið verði að koma í ljós.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .