Gengi hlutabréfa hjá meirihluta félaga á aðalmarkaði tóku við sér á grænum degi Kauphallarinnar í dag. Heildarveltan var upp á 3,8 milljarða króna og hækkaði OMXI10 hlutabréfavísitalan um 1,52% og stendur nú í 3.285,5 stigum.

Gengi hlutabréfa Eimskip hækkaði mest á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins, um 3,91% í 1,1 milljarða króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa félagsins hefur tvöfaldast á árinu. Gengi bréfa Marel hækkaði um 2,56% í um 880 milljóna króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Haga hækkaði síðan um 2,31% í rúmum 80 milljóna króna viðskiptum.

Einungis tvö félög lækkuðu á aðalmarkaði í dag. Gengi hlutabréfa Iceland Seafood lækkaði um 0,68% í óverulegum viðskiptum. Sjóvá lækkaði einnig um 0,53% í viðskiptum dagsins.

Um 334 milljóna króna velta var á viðskiptum með bréf Icelandair, en engin breyting varð á gengi bréfa félagsins.

Á First North markaðnum tók gengi Hampiðjunnar hressilega við sér og hækkaði um tæp 14% í viðskiptum dagsins, en gengið hafði lækkað um 12% í gær. Flugfélagið Play hækkaði lítillega, um 0,44% í 3 milljóna króna viðskiptum. Solid Clouds lækkaði síðan um 9% í um 900 þúsund króna viðskiptum.