Hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands, sem löngum var kallað Óskabarn þjóðarinnar, hækkuðu mest allra bréfa á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag, eða um 5,02% í 164 milljóna króna viðskiptum dagsins, og er gengi þeirra nú komið í 167,50 krónur.

Það er enn nokkuð lægra en útboðsgengi þess árið 2012 þegar það var skráð á markað á 208 krónur hver hlutur, en gengi bréfa félagsins fór í fyrsta sinn niður fyrir það í júní 2015, og hefur það sveiflast nokkuð síðan.

Eftir umfjöllun Kveiks 24. september síðastliðinn um viðskipti með tvö skipa félagsins sem fóru í niðurrif á Indlandi lækkaði gengi bréfa félagsins nokkuð og fór lokagengi bréfanna lægst í 131 þann 28. september síðastliðinn.

Gengi bréfanna hefur svo farið hækkandi á ný, en eins og Viðskiptablaðið fór ítarlega í fyrir helgi taldi verðmat á bréfunum félagið vera undirverðlagt og er hækkunin nú tæplega 28% síðan gengið fór lægst.

Úrvalsvísitalan aldrei hærri

Úrvalsvísitalan er einnig í hæstu hæðum, komin í 2.245,99 stig og hefur lokastig hennar aldrei verið hærri, en á á miðvikudaginn í síðustu viku, 14. október fór hún yfir síðasta hámark sitt frá 9. september.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 1,9 milljörðum króna, en þar af voru mestu viðskiptin með Marel, eða fyrir 363,1 milljón, næst mestu með bréf Símans eða 286 milljónir króna og þriðju mestu með bréf Festi eða um 205 milljónir króna. Öll þrjú hækkuðu þau í verði, Marel um 1,10%, upp í 738,0 krónur, Síminn um 0,85%, upp í 7,16 krónur og Festi um 0,50%, upp í 150,50 krónur.

Á eftir hækkun Eimskipa var næst mesta hækkunin á bréfum Sýnar, eða um 3,99%, up í 33,9 krónur í 85 milljóna króna viðskiptum en þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Vís, eða um 1,69%, í 142 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi vátryggingafélagsins þar með 11,75 krónur.

Icelandair lækkaði mest

Einungis þrjú félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, þar af Icelandair mest eða um 1,04%, niður í 0,95 krónur, sem er 5% undir útboðsgenginu um miðjan síðasta mánuð, en viðskiptin með bréf flugfélagsins námu 13 milljónum króna.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Origo, eða um 0,90%, niður í 33,05 krónur, í 94 milljóna króna viðskiptum og loks var þriðja mesta lækkunin á hlutabréfaverði Iceland Seafood, eða um 0,66%, niður í 9,01 krónu.

Gengisþróun krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum var nokkuð misvísandi en hún styrktist gagnvart bæði Bandaríkjadal, og japanska jeninu en aðrar helstu viðskiptamyntir hennar styrktust gagnvart krónu.

Þannig var styrking evrunnar 0,25% gagnvart krónu og fæst hún nú á 163,06 krónur, breska pundið styrktist um 0,21% og fæst hún á 179,73 krónur, svissneski frankinn styrktist um 0,31% og fæst á 152,16 krónur, danska krónan styrktist um 0,24% og fæst á 21,910 krónur, sænska krónan styrktist um 0,03% g fæst á 15,710 krónur og norska krónan styrktist um 0,27% og fæst á 14,873 krónur.

Veiking dollarans nam 0,33% og er kaupgengi hans nú 138,37 krónur og veiking japanska jensins nemur 0,34% og fæst það nú á 1,3123 krónur.