Rekstur þessara skipa hefur verið krefjandi undanfarin ár og afkoman í „spot“ þjónustu óviðunandi og neikvæð að teknu tilliti til afskrifta og viðhaldsfjárfestinga.

Eimskip hefur komist að samkomulagi um sölu á þremur frystiflutningsskipum félagsins í Noregi fyrir 12 milljónir dollara, um 1,5 milljarða króna.

Skipin sem bera nöfnin Langfoss, Stigfoss og Vidfoss eru 30 ára gömul og hafa verið í rekstri félagsins í Noregi í um 20 ár og í eigu Eimskip síðastliðin 8 ár. Samhliða sölunni hefur Eimskip gert samkomulag við kaupanda um að leigja eitt af þessum skipum til baka næstu tvö árin.

Fyrirtækið hefur verið með sex frystiskip í rekstri en eftir söluna verða þau fjögur og þar af þrjú í eigu Eimskips.

Samkvæmt tilkynningu frá Eimskip mun fækkun skipa ekki hafa áhrif á þjónustu í áætlunarsiglingum í Noregi heldur verður dregið úr flutningsgetu í svokallaðri „spot“ þjónustu.

Rekstur skipanna er sagður hafa verið krefjandi undanfarin ár og afkoman í „spot“ þjónustu óviðunandi og skilað hafi tapi að teknu tilliti til afskrifta og viðhaldsfjárfestinga. Salan á skipunum sé liður í áframhaldandi hagræðingaraðgerðum í Noregi og í takti við vegferð félagsins um einföldun í rekstri og aukna arðsemi eins og áður hefur komið fram í fjárfestakynningum á árinu.

Í nýkynntri fjárfestingaáætlun Eimskips til næstu þriggja ára var gert ráð fyrir að viðhaldsfjárfestingar ársins 2020 myndu nema 21 milljón evra. Vegna skipasölunnar munu viðhaldsfjárfestingar næsta árs lækka um 4 milljónir evra og nema um 17 milljónum evra sem mun hafa jákvæð áhrif á sjóðstreymi. Vænt áhrif á EBITDA fyrir næsta ár er til lækkunar um 1-2 milljónir evra á ársgrundvelli, en á móti kemur að áætlað er að hagnaður eftir skatta muni aukast um allt að 0,5 milljónir evra.

Gert er ráð fyrir að afhending á skipunum til kaupanda muni eiga sér stað í byrjun næsta árs. Samhliða viðskiptunum mun félagið lána kaupanda 50% af söluverði skipanna til sex ára með jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum afborgana og vaxta. Þar sem bókfært verð skipanna er hærra en sem nemur söluverði mun Eimskip færa um 2 milljónir evra í virðisrýrnun í gegnum afskriftir á fjórða ársfjórðungi 2019.