Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra útilokar ekki að hægt verði að draga stuðningsgreiðslur ýmis konar frá skattstofni fjármagnstekna að aflokinni endurskoðun hans sem nú stendur yfir að því er Fréttablaðið segir frá.

Eins og mælt er fyrir um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var fjármagnstekjuskattur hækkaður síðustu áramót í 22%, en einnig á að skoða skattstofn hans út frá því að hann leggist á raunávöxtun.

Hefur ráðherra boðað skipun starfshóps til að endurskoða skattstofn fjármagnstekjuskattsins, en auk krafna um að verðbólga leiði ekki til hærri fjármagnstekjuskattstofns, hefur verið vakin athygli á því að víða erlendis eru styrktarsjóðir ýmis konar undanþegnir fjármagnstekjuskatti.

Undanþágur á Norðurlöndum, Bretlandi og Bandaríkjunum

Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík hefur til að mynda bent á að í mörgum ríkjum fáist skattaafsláttur á móti fé sem fyrirtæki og einstaklingar setja í styrki til Háskóla og rannsóknarstarfsemi.

Í úttekt Deloitte fyrir Háskóla Íslands kemur fram að styrktarsjóðir sem styrkja rannsóknir og vísindastarf hér á landi væru ekki samkeppnishæfir við viðlíka sjóði í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum því þeir væru ekki undanþegnir fjármagnstekjuskatti líkt og þar.

Til að mynda greiði Eimskipasjóður Háskóla Íslands álíka mikið í fjármagnstekjuskatt og hann veitir í styrki, sem sérfræðingur Deloitte metur sem svo að hann gæti veitt tvöfallt hærri styrki ef sambærilegar reglur giltu hér á landi.

Lánastofnanir og lífeyrissjóðir þegar undanþegnar

Í lögum um tekjuskatt eru undanþágur frá fjármagnstekjuskatti fyrir ýmsar lánastofnanir og lífeyrissjóðina að því er fram kom í svarbréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna málsins.

„Væri hins vegar uppi sú hugmynd að útvíkka umrætt undanþáguákvæði gagnvart greiðslu fjármagnstekjuskatts, getur orðið erfitt að ákveða hvar draga eigi mörkin út frá sjónarmiði jafnræðis og fordæmis,“ segir jafnframt í bréfinu.

„Þannig eru aðilar eins og sveitarfélög og stofnanir þeirra, sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga, sjálfseignarstofnanir og minningarsjóðir allir undanþegnir tekjuskatti en greiða hins vegar fjármagnstekjuskatt eins og styrktarsjóðir Háskóla Íslands.“