Á árinu 2015 var hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna 8,0%, en samkvæmt bráðabirgðatölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) var raunávöxtun meðal íslenskra lífeyrissjóða með því hæsta meðal aðildarlanda samtakanna.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er öflugt en eftir sem áður eru sjóðir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga með umtalsverðan halla.

Neikvæð ávöxtun í Bandaríkjunum

Þetta kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins, en næstu lönd á eftir því íslenska er Holland með um 7% ávöxtun árlega vegin meðal raunávöxtun, og síðan koma Ástralía, Finnland og Grikkland í næstu sætum á eftir.

Bæði í Bandaríkjunum og Póllandi er raunávöxtunin hins vegar neikvæð.

Undir viðmiði ef hrunárin eru tekin með

Ef horft er á meðaltal raunávöxtunar íslensku lífeyrissjóðanna yfir síðastliðin 25 ár var hún 4,6%, sem er vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóðanna.

Árleg raunávöxtun síðustu 10 ára reyndist vera einungis 1,8%, en ef hins vegar er horft til síðustu 5 ára var raunávöxtunin 6,2%. Í fyrra reyndist raunávöxtun séreignadeilda lífeyrissjóðanna vera 7,8%.

Sjóðirnir eiga 3,45 billjónir króna

Eignir sjóðanna síðustu áramót reyndust vera um 3.454 milljarðar króna, sem nemur um 157% af vergri landsframleiðslu. Er það aukning um 2 prósentustig frá fyrra ári, en eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna jukust um nærri 11% og voru þeir 2.955 milljarðar króna.

Nemur það um 86% af lífeyrismarkaðnum. Um 321 milljarður er í séreignarsparnaði í vörslu lífeyrissjóðanna auk 178 milljarða hjá öðrum vörsluaðilum. Jókst hann um 14% meðal þess sem var í vörslu sjóðanna en um 11% hjá öðrum vörsluaðilum.

Þrír fjórðu hlutar í innlendum eignum

Á árinu lækkuðu eignir sjóðanna í verðbréfum með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga og reyndust þær vera 38% af heildareignum sjóðanna í árslok.

Um 23% af heildareignum eru í erlendri mynt, svo nálega þrír fjórðu hlutar eigna sjóðanna eru í innlendum eignum.

Þrír stærstu eiga helming heildareignanna

Á árinu 2015 reyndust starfandi 26 lífeyrissjóðir hérlendis í 76 deildum samtryggingar og séreignar. Þess utan voru sjö aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar.

Stærstu lífeyrissjóðirnir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður. Hrein eign þeirra þriggja stærstu nam 1.622 milljörðum í lok síðasta árs, sem er um helmingur af eignum allra lífeyrissjóðanna.

Næstu átta sjóðir raðað eftir stærð eiga eignir á bilinu 100 til 200 milljarðar króna hver og er hlutdeild þeirra í heildareignum sjóðanna um 37%. Síðan eru samtals 15 sjóðir með minna en 100 milljarða króna í sinni vörslu, en hlutdeild þeirra í heildinni er um 13%.