Umsjón er nýtt kerfi sem ætlað er að spara verktökum tíma, auk þess að einfalda þeim skipulag og stuðla að hagkvæmni og auknum þægindum. Snævar Már Jónsson, stofnandi og eigandi Umsjónar, segir að með kerfinu geti verktakar haldið utan um starfsemina frá A til Ö, allt frá skoðun á verki til tilboðs- og reikningsgerðar. Kerfið veiti góða yfirsýn yfir öll verk frá upphafi til enda. Það sé eitthvað sem verktökum hafi, þar til nú, skort sárlega og Umsjón leysi það vandamál.

Hann segir hugmyndina að Umsjón hafa kviknað er hann vildi gera eigin verktakarekstur hagkvæmari og fækka þeim ólaunuðu vinnustundum sem hann vann af hendi í hverjum mánuði. Mörg kvöld og nætur hafi farið í tilboðsgerð, raða upp dagskrá frá viku til viku og passa upp á að öll samskipti á milli hans og viðskiptavina væru í lagi. Jafnframt hafi allar upplýsingar tengdar vinnunni verið geymdar á mörgum mismunandi stöðum. Sumt í tölvunni, annað í símanum og margt einfaldlega í kollinum á honum sjálfum. Þar sem vinnan var farin að koma niður á frítímanum ákvað hann að taka til sinna ráða.

„Tilboðsgerð, verkskoðanir, skipulag og reikningagerð eru verkþættir sem verktakar fá yfirleitt ekki borgað fyrir. Þessir þættir taka hins vegar margar klukkustundir á viku sem yfirleitt eru unnar að loknum vinnudegi þegar einkalífið og tími með fjölskyldunni ætti að vera í forgrunni. Mig langaði því að finna einhverja lausn sem gerði þessa vinnu fljótlegri og krefðist þess ekki að maður þyrfti að slá allt handvirkt inn í tölvu. Ég hófst því handa við að vinna í að búa til kerfi sem gerði þessa bakvinnslu sjálfvirkari og ætlaði upphaflega bara að notast við hana sjálfur. En eftir samtal við marga úr verktakabransanum sem voru að glíma við nákvæmlega sama vandamál rann upp fyrir mér að fleiri þyrftu sannarlega á kerfinu að halda."

Snævar segir Umsjón fækka þessum ólaunuðu vinnustundum um meira en helming. „Það þýðir að verktakar hafa meiri frítíma utan vinnu, sem skilar sér í hagræðingu í rekstri og betri andlegri og líkamlegri líðan í vinnunni."

Verktakar setið á hakanum

Snævar bendir á að hröð stafræn þróun hafi átt sér stað í samfélaginu. Að einhverri ástæðu hafi verktakabransinn hins vegar setið eftir. „Maður var að gera tilboð á einum stað, samskiptin voru á öðrum stað, reikningar voru sendir í gegnum annað kerfi og tímalína verkefnisins var svo í fjórða kerfinu. Í Umsjón er aftur á móti allt þetta á sama staðnum." Snævar kveðst ekki hafa fundið neitt sambærilegt kerfi og Umsjón hvorki á heimamarkaði né erlendis.

Þó að hugur flestra leiti til iðnaðarmanna þegar þeir heyri orðið verktaki, segir Snævar Umsjón einnig henta þeim sem starfa sjálfstætt í öðrum geirum en byggingariðnaði. „Nú höfum við tækifæri á að leyfa verktökum að nýta Umsjón og um leið ávinning þess að hafa meiri tíma til umráða. Þó að Umsjón sé vissulega miðað að verktökum í byggingariðnaði getur kerfið hentað öllum sjálfstætt starfandi aðilum sem þurfa fullkomna yfirsýn og kerfi sem heldur utan um tilboðsgerð og samskipti við viðskiptavini," segir Snævar og bætir við að Umsjón henti stórum sem smáum fyrirtækjum, þar sem mismunandi áskriftarleiðir séu í boði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .