Í svari Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdótturþar sem hún spurði um bílakaup forsætisráðuneytisins kemur fram að einungis einn bíll hafi verið keyptur frá árinu 2014.

Í svarinu kemur fram að bíllinn sé að gerðinni Mercedes Benz S 350 Blue Tec Sedan ár­gerð 2015 og að gangi fyrir dísilolíu. Bjarni sagði einnig að bifreiðakaupinn hafi verið  í samræmi við markmið tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi.

Hann var jafnframt spurður hvort að krafa hafi verið gerð í útboðsskilmálum um að þær bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa. Í svari Bjarna segir "... Orkugjafar sem til greina komu í útboðslýsingu voru bensín, dísill eða rafmagn. Bifreiðar sem knúnar voru áfram með vélum sem nota samspil þessara orkugjafa komu einnig til greina. Í útboðsskilmálum var nánar tiltekið að CO2 mengun skyldi ekki vera yfir 170 g/km og að eyðsla skyldi vera undir 7 lítrum/100 km í blönduðum akstri. Við útboð vegna bifreiðakaupa í framtíðinni mun ráðuneytið, eins og áður, leitast við að gæta ýtrustu öryggis-, umhverfis- og gæðakrafna og tekur þar m.a. mið af ályktun Alþingis um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem og fyrirhugaðri samgöngustefnu fyrir Stjórnarráðið."