Viðar Þorkelsson,forstjóri Valitor, hefur leitt fyrirtækið í gegnum miklarbreytingar frá því að hann tók við stjórnartaumunum árið 2010. Stjórn fyrirtækisins samþykkti nýja stefnu síðla árs 2012 sem fól meðal annars í sér að fyrirtækið hóf að horfa í mun meiri mæli á erlenda markaði eftir að hafa verið lengi í forystu í kortaviðskiptum á íslenskum markaði.

Ætla verða eitt af 25 stærstu fyrirtækjum Evrópu í færsluhirðingu

Hversu stór er Valitor á evrópskum markaði?

„Ég myndi segja að við séum að nálgast það að verða miðlungsstórt fyrirtæki á alþjóðavísu en það er búið að taka okkur um það bil fjögur ár eða síðan við fórum af stað með þessa stefnumörkun. Á þessum tíma höfum við aukið virði hluthafa umtalsvert og fjárfest gríðarlega mikið en við sjáum líka að við getum gert enn betur.“

Hvert er framtíðarmarkmið ykkar þegar kemur að stærð og starfsemi?

„Við höfum sett okkur það markmið að verða eitt af 25 stærstu fyrirtækjum Evrópu í færsluhirðingu en í dag erum við sennilega í 37-38. sæti og gerum ráð fyrir að vera einhvers staðar í kringum 33. sætið í lok árs. Við höfum auk þess sett okkur annars konar markmið en það er að færslufjöldi okkar verði kominn yfir einn milljarð árið 2020 en þeir stærstu á markaðnum í dag eru með á bilinu 10-15 milljarða færslna.

Okkar markmið er að verða nægilega stór til að ná hagkvæmni stærðarinnar en í okkar bransa skiptir stærð miklu máli. Það þarf mikinn fjölda af færslum til að takast að verða hagkvæmur og arðsamur. Í dag erum við sennilega á ársgrundvelli með á bilinu 380-390 milljónir færslna þannig að við erum komin vel áleiðis.“

Stefna á frekari fjárfestingar

Hvernig myndir þú lýsa samkeppninni á þessum markaði í Evrópu?

„Það er mikil samkeppni og gríðarleg dínamík í þessum geira um þessar mundir. Tækniþróunin er hröð og regluverkið hefur verið að breytast töluvert þar sem það eru að koma inn nýjar reglur frá Evrópusambandinu. Það hefur sýnt sig að þeir sem gera hlutina rétt hafa náð að vaxa mjög hratt og náð góðum árangri þar sem tekist hefur að búa til heilmikið virði en það er klárlega mjög mikil samkeppni og þú verður að reka kraftmikla vöruþróun til að vera samkeppnishæfur.

Við keyptum nýlega lítið breskt fyrirtæki sem heitir IPS og höfum verið að stilla starfsemi þess saman við fyrirtæki okkar, AltaPay. AltaPay þjónustar þannig viðskiptavini okkar sem eru með netviðskiptin á meðan IPS þjónustar fyrirtæki sem eru með innanhús-posa. Við erum með þessu að leiða saman tvo hesta og getum þannig boðið upp á heildarlausnir fyrir viðskiptavini okkar á borð við Zara, Sports Direct og Clarks. Á þennan hátt höfumvið aukið samkeppnishæfni okkar umtalsvert enda bjóða mjög fáir aðilar í Evrópu upp á þessa lausn á markaðnum.“

Munuð þið ráðast í frekari fyrirtækjakaup erlendis á komandi misserum?

„Já, það hefur verið stefna okkar alveg frá árinu 2012 að vaxa bæði með innri vexti og með sérvöldum fjárfestingum. Það eru því töluverðar líkur á því að við munum ráðast í frekari fyrirtækjakaup á þessu ári, það er í undirbúningi.“

Viðtalið við Viðar má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.