Hlutfall ungmenna á Íslandi á aldrinum 16 til 24 ára, sem ekki voru í námi, vinnu, eða í einhvers konar starfsþjálfun, var á síðasta ári með því lægsta sem þekkist í Evrópu, eða 5%, meðan meðaltalið í Evrópu er um 10,5% að því er Hagstofan greinir frá.

Hlutfallið er reyndar svipað lágt í Noregi, Hollandi og Lúxemborg, en hlutfallið var hæst í Tyrklandi eða 24,4%, en Norður-Makedónía (áður fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía), fylgdi fast á hæla þess með 24,1%.

Þessar tölur miða við tölur Eurostat, en Hagstofan metur hlutfallið hærra á Íslandi en Evrópustofnunin, eða 6,0%, því hún tekur með inn í þessum tölum einstaklinga sem búa á stofnunum.

Jafngildir sú tala að tæplega 2.400 ungmenni á þessu aldursbili séu í þessari stöðu, og þar með talin geta verið áhættuhópur fyrir félagslega einangrun og skort á efnislegum gæðum því skorti tækifæri til að auka menntun eða þjálfun sína.

Árið 2014 var hlutfallið hér á landi 7,2% en lækkaði lítillega næstu ár á eftir og var munurinn frá árinu 2014 orðinn marktækur árið 2016, eða um 2% lækkun, og aftur sambærilegur árið 2017. Árið 2018 hækkaði hlutfallið lítillega aftur, og var metið 6,0%, en breytingin frá árinu 2017 var þó ekki tölfræðilega marktæk.

Hlutfallið 2018 er þó verulega lægra en fyrstu árin eftir efnahagshrunið 2008, þegar það var á bilinu 8,3% til 9,1%. Í stórum dráttum má segja að hlutfall 16-24 ára ungmenna sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, sé nú aftur orðið svipað því sem þekktist á árunum fyrir hrun.