Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að tveggja metra reglan verði afnumin og í stað þess verði nálægðarmörk miðuð við einn metra. Enn fremur að fjöldamörk miðist við tvö hundrað manns fremur en hundrað manns eins og áður gilti. Frá þessu er greint á vef Vísi.

Reglurnar munu taka gildi á mánudag 7. september næstkomandi sem er fyrr en áður hafði gert ráð fyrir. Einnig leggur sóttvarnalæknir til að leyfilegur fjöldi gesta í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum verði 75% af hámarksfjölda fremur en 50% eins og er nú.

Leggur hann til að engin breyting verði á opnunartíma skemmtistaða sem nú eru opnir til ellefu á kvöldin. Grímuskylda verður óbreytt frá því sem verið hefur.

Gert er ráð fyrir að endurskoða reglurnar tveimur til þremur vikum eftir að þær taka gildi.