Fyrirtækin þrjú sem skipta með sér markaðnum fyrir bifreiðaskoðanir – Frumherji hf., Aðalskoðun hf. og Tékkland bifreiðaskoðun ehf. – högnuðust um samtals 16,3 milljónir króna árið 2016 samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum. Samanlagður hagnaður þeirra dróst saman um 177 milljónir milli ára. Mestur var hagnaðurinn hjá Frumherja, eða 23,4 milljónir. Talsverð endurnýjun hefur verið á bílaflotanum undanfarin tvö ár, sem dregið hefur úr fjölda skoðunarskyldra bíla, en gert er ráð fyrir því að stofninn fari vaxandi til lengri tíma litið.

Fyrirtækin þrjú starfa á markaði fyrir lögbundnar ökutækjaskoðanir á skoðunarskyldum ökutækjum. Skylda er að fara með öll ökutæki sem skráð eru hérlendis, utan dráttarvéla og torfærutækja, í skoðun á ársfresti. Nýir bílar fara fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir að þau eru skráð, að skráningarárinu frátöldu. Samkeppniseftirlitið skilgreindi markaðinn sem fákeppnismarkað árið 2015, þegar áform um samruna Tékklands og Aðalskoðunar voru dregin til baka.

Gömlu bílarnir eru góðir kúnnar

Oftar en ekki er aukin sala á munaðarvörum merki um góðæri. Ein birtingarmynd þess er aukin sala á nýjum bílum. Innflutningur á ökutækjum og nýskráningar bifreiða hefur stóraukist undanfarin misseri, sérstaklega undanfarin tvö ár. Nýskráningar fólksbifreiða hjá Samgöngustofu voru 20.761 í fyrra og hafa sjaldan verið fleiri en nú, en á milli janúar og ágúst á þessu ári hafa 20.530 nýjar fólksbifreiðar verið skráðar. Samhliða þessu hefur meðalaldur bílaflotans tekið að lækka, en á milli 2007 og 2015 hækkaði hann úr 9,1 ári í 12,7 ár.

Orri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, segir endurnýjun bílaflotans hafa áhrif á reksturinn til skemmri tíma. Til lengri tíma litið skili það þó ávinningi fyrir skoðunarstofurnar.

„Það sem skiptir máli á bílaskoð­unarmarkaðnum er heildarstærð bílaflotans sem er skoðunarskyldur. Þegar það koma svona stór endurnýjunarár eins og núna er spurningin hversu margir nýir bílar skila sér sem viðbót við flotann og hversu mikið er afskrifað á móti. Samhliða nýskráningum er verið að henda yngri bílum fyrr en áður og meðalaldur bílaflotans er að lækka. Þá eru 2004/2005 árgangarnir að detta út, sem voru stórir árgangar. Flotinn hefur minnkað tvö ár í röð. Þetta hefur auðvitað áhrif á reksturinn til skemmri tíma, enda eru gömlu bílarnir góðir kúnnar fyrir okkur þar sem þeir koma margir í árlega skoðun,“ segir Orri.

„En á móti er þetta eins og að leggja inn í banka. Þetta skilar sér til framtíðar. Þessir bílar skila sér í skoðun í fyrsta skipti eftir fjögur ár. Það er aukning fyrir skoðunarstofurnar.“

Orri segir markaðsaðstæður fyrir bifreiðaskoðanir almennt stöðugar.

„Markaðurinn er nokkuð stöð­ugur á heildina litið og reksturinn keimlíkur ár frá ári. Stabbinn hjá okkur er 15 ár. Þar inni eru stór og lítil ár, en að meðaltali er þetta ágætt. Við þurfum því ansi mörg slæm eða góð ár í sölu í einu til að það hafi mikil áhrif á reksturinn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .