Tinna Hrund Birgisdóttir framkvæmdastjóri Reykjavík Foods segir hugmyndina með fyrirtækinu að nýta verkhefð niðursöðuframleiðslunnar til að koma með nýja flóru af vörum úr íslenskum afurðum fyrir íslenskan og erlendan markað.

„Það liggja mikil tækifæri í því að kynna íslenskar vörur til þessa mikla fjölda ferðamanna sem kemur til landsins. Við gerðum könnun um hvað væri í boði á matarminjagripamarkaðinum fyrir ferðamenn hér á landi og sáum að það væri pláss fyrir meiri fjölbreytni. Hingað til hefur það helst verið þetta flotta salt sem var í boði, og svo súkkulaðið frá Omnom sem hefur svolítið drifið þetta trend áfram og svo Lava Cheese osturinn íslenski,“ segir Tinna sem segir Þór Sigfússon hafa átt hugmyndina upphaflega.

„Hugmyndin var að vinna úr þessu hágæða íslenska sjávarfangi, og byrjuðum við á íslenska laxinum, en varan er sett fram í huggulegum pakkningum svo hún verður svolítið eiguleg. Síðasta sumar settum við á markað fjórar tegundir af laxi í dós, það er hreinn lax með íslensku sjávarsalti frá Saltverk, reyktur lax, svo erum við með lax með ítölskum truflum, en við höfum verið í samstarfi við trufluframleiðanda frá Ítalíu og svo erum við með lax með hvítlauk og basil. Í haust kynntum við svo til leiks tvær tegundir af niðursoðnu lambakjöti í ólifuolíu með kryddjurtum til að ná fram besta bragðinu í lambakjötinu. Síðan höfum við verið að prófa okkur áfram með reykta ýsu, en hugmyndin til að byrja með er að vera með afurðir sem hafi langan líftíma.“

Tinna segir allar þessar tegundir hafa það sameiginlegt að í þeim séu mjög fá innihaldsefni en hún segir þvert á það sem margir Íslendingar halda þá tryggi niðursuðan gæði vörunnar.

„Oft finnst Íslendingum sem niðursuðuvara hljóti að vera eitthvað sem er ekki nógu gott eða ferskt, en þetta er svolítið eins og Ítalarnir gera þegar þeir setja ferska tómata í dósir svo þeir haldist í sem bestu gæðum. Við höfum verið að kynna þetta í matvörubúðum og leyfa fólki að smakka og hafa viðtökurnar hjá Íslendingum farið fram úr okkar björtustu vonum.“ segir Tinna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Veglegt sérblað um Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri fylgir Viðskiptablaðinu á morgun. Blaðið er gefið út í samvinnu við Kelduna
  • Fjárfesting í sprotafyrirtækjum minnkar milli ára en fjöldi þeirra eykst
  • Umfjöllun um hlutafjáraukningu í fjármálageiranum
  • Stjórnarformaður MS segir að reksturinn hafi verið nálægt núllinu á árinu
  • Mikill vöxtur hefur verið í framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni á Íslandi
  • Hagnaður Deloitte dróst saman milli ára
  • Ítarlegt viðtal við Páll Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík
  • Víkingaheimur í Mosfellsdal leitar nú að fjárfestum
  • Viðtal við Sæmund Sæmundsson nýjan forstjóra Borgunar
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um heilbrigðiskerfið og skattheimtu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Bjarna Benediktsson og skattamál