Arctic Trucks vöktu athygli heimsbyggðarinnar þegar bílar úr breytingasmiðju Arctic Trucks báru sjónvarpsmennina í Top Gear á segulnorðurpólinn árið 2007. Emil Grímsson, stofnandi Arctic Trucks, var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Hluta af viðtalinu má lesa hér en viðtalið í heild birtist í Viðskiptablaðinu .

„Þá fáum við mikla kynningu en þetta eru fyrstu bílarnir sem fara á segulnorðurpólinn. Ég man eftir fyrsta símtalinu frá Toyota í Bretlandi þegar þeir spurðu mig hvort það væri hægt að keyra Hilux á segulnorðurpólinn. Ég spurði á móti hvar það nú eiginlega væri,“ segir Emil og hlær. „Eftir að hafa fengið þær upplýsingar sagði ég bara „jájá, ég held það.“ Þá þekkti ég Top Gear ekki mikið en fannst þetta spennandi verkefni. Nokkrum árum síðar tóku svo Top Gear-menn sig til að nýju og óku Toyota Hilux að gosstöðvum í Eyjafjallajökli.

Undanfarinn áratug eða svo hefur Emil sjálfur lagt mesta áherslu á Suðurpólsverkefni fyrirtækisins. „Þar förum við alveg svakalegar vegalengdir. Við þurftum í einu verkefninu að keyra um 5.000 kílómetra leið til að styðja við skíðalið. Á korti virkar þetta ekki neitt neitt,“ segir Emil og tekur sér stöðu við stærsta kortið á einum af veggjum herbergisins þar sem við spjölluðum saman. Kortið er af Suðurskautslandinu. Þegar stærðirnar eru settar í samhengi er Suðurskautslandið 14 milljónir ferkílómetra að stærð, 135 sinnum stærra en Ísland og  1.728 sinnum stærra en Vatnajökull. „Og hann er alveg virðulegur jökull. Ég sagði já á þessum tíma en ég sagði líka já við ýmsum hlutum sem ég vissi ekkert við hverju ég var að segja já við. Ef ég hefði vitað þá það sem ég veit í dag þá hefði ég vitað að það var rugl að segja já.“

Eins og sjerparnir á Everest

Verkefnið gekk vel og hefur haft mikil áhrif á þá stefnu sem fyrirtækið hefur tekið síðan þá. „Við erum með algjörlega einstaka þekkingu á heimsvísu á Suðurskautslandinu. Enginn getur gert það sem við getum gert þarna.“

Emil nefnir í þessu sambandi að Arctic Trucks hafi verið fyrst til að gera ótrúlegustu hluti en láti vera að blása það upp og leyft öðrum að taka heiðurinn. „Ég gæti talið upp mörg heimsmet eða hversu oft við höfum verið fyrstir í heimi til að gera hitt eða þetta. En við höfum mynda breytingar á Hyundai Santa Fe svo hann gæti þverað Suðurskautslandið með einn af afkomendum Ernest Shackleton. Santa Fe er mjög vel smíðaður bíll en með allt aðra grunnhönnun en það sem hentar í þetta. Verkfræðingar og leiðangurskipuleggjendur Arctic Trucks komu með lausn sem skilaði frábærum PR-árangri fyrir Hyundai, meðal annars um 100 milljón áhorfum á Youtube á sjö vikum.

Af hverju eruð þið í þessum verkefnum?

„Við getum farið víða um Suðurskautslandið fyrir allt að 1/10 af því eldsneyti sem snjóbíll þyrfti og förum þrisvar til fimm sinnum hraðar. Við erum því á allt öðrum stað en snjóbílar í sambandi við tíma og skilvirkni fyrir létta starfsemi. Við getum ekki dregið 30 tonn eins og snjóbílarnir en getum komist hratt yfir. Suðurskautslandið er í dag einstakt til vísindastarfs og fyrir sérstæða ferðamennsku.  Við störfum eingöngu við svokallað „deep field“ en vegna gríðarlegs kostnaðar liggur aðeins um 1% ferðamennsku á Suðurskautslandið þarna, 99% ferðamanna á fara á „The Antarctica Peninsula“ eða eyjum þar nálægt. Síðan höfum við selt ýmsum þjóðum bíla í vísindastarf þeirra – Þjóðverjum, Finnum, Svíum, Kínverjum, Indverjum og Kóreu en líka einkaaðilum.  Þessi starfsemi á Suðurskautslandinu hefur skilað okkur góðri afkomu og lagt grunn að frekari þróun en hjá okkur er ekki síður mikilvægt hvernig þetta bætir stöðugt stoðum undir vörumerki okkar sem við nýtum til að selja minni og skalanalegri breytingum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .