Theresa May komst til valda nánast fyrir tilviljun þegar Bretar völdu úrgöngu úr Evrópusambandinu og David Cameron sagði af sér. Þrátt fyrir að hún hafi sjálf stutt áframhaldandi aðild að ESB lagði hún mikla áherslu á að Brexit þýddi Brexit og að stjórnmálastéttin myndi ekki komast upp með nein undanbrögð; þjóðin hefði sagt sitt síðasta orð.

Upphaflega útilokaði May að boðað yrði til kosninga á ný, en sú afstaða átti eftir að breytast hjá henni, þegar hún lenti í ýmsu mótlæti í þinginu, bæði varðandi viðskilnaðarsamningana við ESB, fjárlög og ýmislegt fleira, auk þess sem sumir viðsemjendurnir á meginlandinu voru ekki yfir það hafnir að segja hana hafa takmarkað umboð þjóðarinnar.

Markmiðið í kosningabaráttunni hjá May er þó ekki aðeins það að sækja sér óyggjandi umboð, heldur vill hún notfæra sér einstakt pólitískt tækifæri til þess að ganga frá Verkamannaflokknum. Sá forni höfuðóvinur íhaldsmanna er í sárum, illa klofinn með vanhæfa forystu úr villta vinstrinu, en þorri þjóðarinnar hefur enga trú á Jeremy Corbyn, leiðtoga hans, til þess að stjórna flokknum, hvað þá landinu.

Breytt „brand“

Kosningabarátta Íhaldsflokksins hefur því að mestu snúist um að benda á vonleysi Corbyns og trotskýistaklíku hans með annarri og „styrka og stöðuga stjórn“ frú May með hinni.

Það er ekki hægt að neita því að tækifæri „Móður Theresu“ eru umtalsverð. Ekki er nóg með að höfuðandstæðingurinn sé meira og minna úr leik vegna forystuvanda hans, heldur er Verkamannaflokkurinn enn veikari en ella vegna þess að víða í norðurhluta landsins, þar sem flokkurinn gekk að þingsætum vísum um árabil, var verulegur stuðningur við úrgöngu úr ESB þvert á afstöðu flokksins. Í þeim kjördæmum eru margir hefðbundnir kjósendur Verkamannaflokksins að gæla við að kjósa Theresu May til þess að klára Brexit.

Fyrir þann hóp hefur ávallt verið óhugsandi að kjósa íhaldið og það í marga ættliði. Nú er það breytt og þegar það skref hefur einu sinni verið stigið, þá er unnt að gera það aftur og einokun Verkamannaflokksins verið aflétt.

Eða það er ráðagerð frú May og einmitt þess vegna er öll kosningabaráttan miðuð við að menn kjósi Theresu May og hennar lið. Engin áhersla er lögð á frambjóðanda kjördæmisins og nafn Íhaldsflokksins er ekki áberandi í auglýsingum, bæklingum og veggspjöldum. Nánast í smáa letrinu. Það er meiri háttar breyting á „brandinu“.

Evrópumálin fyrir bí

Það er merkilegt að þó að þessar kosningar snúist að mestu um Brexit og það mál brenni enn á mörgum, þá má segja að Evrópumálin séu úr sögunni. Frjálslyndir demókratar hafa verið ákafastir Evrópusinna í Bretlandi og vonuðust til þess að hreppa fylgi vonsvikinna Evrópusambandssinna, en ekkert bendir til þess að þeir rétti úr kútnum. Meira máli skiptir þó sjálfsagt að UKIP, flokkur sjálfstæðissinna, virðist vera að þurrkast út. Meðan Evrópumálin voru á döfinni (og Íhaldsflokkurinn var afskaplega hálfvolgur í þeim) fékk UKIP verulegan stuðning, en eftir að úrgangan úr ESB var frágengin hvarf tilgangurinn með því að kjósa þá. Það fylgi virðist allt meira og minna fara yfir til Íhaldsflokksins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .