Sjö af tólf stærstu stveitarfélögunum stefna að lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði á næsta fjárhagsári, og sex þeirra lækka það einnig á atvinnuhúsnæði.

Hins vegar lækka einungis Akranes, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar nógu mikið til þess að tekjur þeirra muni ekki hækka umfram þau 2,5% sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mælst til, til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor.

Kemur þetta fram í ítrekaðri áskorun Félags atvinnurekenda, Húseigendafélagsins og Landsambands eldri borgara, þar sem þau beina til allra sveitarfélaganna, þar sem 82% landsmanna búa, að lækka álagningarprósentuna. Jafnframt taka þau undir áminningu ASÍ til sveitarfélaganna um yfirlýsinguna.

Samtökin þrenn eru sammála um að sveitarfélögin geti ekki hlaupist undan ábyrgð á því að viðhalda verðstöðugleika í landinu og varðveita þann árangur sem náðist í kjarasamningunum.

Hækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði vegna hærra fasteignamats kemur beint niður á öllum almenningi í landinu, ýmist með því að fólk þarf að greiða hærri gjöld af eignum sínum eða hærri leigu fyrir leiguhúsnæði.

Hækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði knýr fyrirtækin til að hækka verð á vörum og þjónustu, sem einnig bitnar á öllum almenningi. FA, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara skora á sveitarfélögin að gera það sem gera þarf áður en fjárhagsáætlanir eru endanlega samþykktar til að tryggja að fasteignagjöld hækki ekki um meira en 2,5%.