Á dögunum var liðið eitt ár frá því að lággjaldaflugfélagið Wow air söng svanasöng sinn, en fimmtudaginn 28. mars greindi félagið frá því að það hefði hætt starfsemi. Óhætt er að segja að skipst hafi á skin og skúrir í sögu félagsins, en það var stofnað í nóvember árið 2011 og hóf áætlunarflug í lok maí árið 2012. Stofnendur félagsins voru Skúli Mogensen, Matthías Imsland og Baldur Oddur Baldursson.

Hraður vöxtur

Fyrstu árin var félagið rekið með tapi. Tap þess nam 794 milljónum króna árið 2012 og kvaðst Skúli sáttur með niðurstöðuna, enda hefði verið reiknað með tapi fyrstu árin. Á milli áranna 2012 og 2013 fjórfaldaðist velta félagins úr 2,5 milljörðum yfir í 10 milljarða. Tap ársins 2013 nam 330 milljónum króna en þegar þarna var komið við sögu var félagið komið í fulla eigu Títans, fjárfestingafélags Skúla.

Wow air hélt í kjölfarið áfram vexti sínum og var Ameríkuflug, sem félagið hóf árið 2015, lykilhlekkur í vextinum. Tap ársins 2014 nam 560 milljónum króna, en það hafði allt fallið til á fyrri hluta ársins. Árið 2015 kom félagið sér svo sannarlega réttu megin við núllið þegar hagnaður ársins nam 1,1 milljarði króna. Árið 2016 reyndist félaginu enn hagfelldara, en þá hagnaðist félagið um 4,3 milljarða króna.

Síga tekur á ógæfuhliðina

Fyrst fóru að heyrast fréttir um slæma fjárhagsstöðu Wow air á fyrri helming ársins 2018 en árið 2017 nam tap félagsins 2,4 milljörðum króna. Til að gera langa sögu stutta mislukkuðust ýmsar aðgerðir sem miðuðu að því að tryggja rekstrarhæfi félagins til framtíðar. Má í því samhengi nefna 6,4 milljarða króna skuldabréfaútboð og mislukkaðar viðræður um sölu á félaginu; fyrst til Icelandair, svo Indigo Partners og loks á ný til Icelandair. Að lokum sigldi félagið í þrot.

Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson voru skipaðir skiptastjórar þrotabúsins. Lýstar kröfur námu alls 138 milljörðum króna og var stærsta krafan, sem nam 52,8 milljörðum króna, frá flugvélaleigunni CIT Aerospace International.

Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar hvað þrot Wow air varðar og samkvæmt fréttum undanfarinna mánaða má jafnvel búast við að kröfuhafar félagsins leiti réttar síns fyrir dómstólum. Hafa skuldabréfaeigendur félagsins m.a. verið nefndir í því samhengi.

Létu velgengnina stíga sér til höfuðs

Skömmu eftir fall Wow air sendi fyrrum eigandinn og forstjórinn Skúli Mogensen frá sér bréf þar sem hann fór yfir fall félagsins. Í bréfinu sagði hann að velgengni áranna 2015 og 2016 hefði átt sinn þátt í að félagið hefði farið fram úr sér. Sagði hann að ákvörðunin um að taka 350 sæta Airbus A330 breiðþotur í flotann hafi reynst slæm, þar sem það verkefni reyndist of dýrt og flókið. Hann sagði félagið auk þess hafa fjarlægst lággjaldastefnu sína með því að taka í gagnið viðskiptafarrými og fleiri þjónustur sem ekki ættu heima innan lággjaldamódels. Loks sagði hann að félagið hefði átt að sækja fjármagn byggt á þeim góða árangri sem það náði árin 2015 og 2016, til að styrkja eiginfjárgrunn og efla félagið verulega fyrir komandi tíma.

Wow á flug á ný?

Í byrjun september á síðasta ári var svo greint frá því að bandaríska félagið USAerospace Associates hefði samið um kaup á eignum úr þrotabúi Wow air, þar á meðal vörumerki félagsins. Michelle Roosevelt Edwards er í forsvari fyrir bandaríska félagið og er hún titluð stjórnarformaður hins endurreista Wow air.

Upphaflega boðaði hún að félagið myndi hefja áætlanaflug milli Íslands og Washington í október á síðasta ári. Félagið hefur þó ekki hafið áætlanaflug enn sem komið er. Ljóst er að aðstæður á flugmarkaði hafa sjaldan eða aldrei verið jafn krefjandi og í dag, vegna áhrifa kórónuveirunnar.

Það verður því gaman að sjá hvort þotur málaðar fagurfjólubláum einkennislitum Wow air muni brátt hefja sig til flugs á ný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .