Arngrímur Viðar Ásgeirsson sem er einn þeirra sem reka verslunina Eyrin á Borgarfirði eystra segir hundfúlt að þurfa að loka versluninni 1. september næstkomandi. Er um að ræða einu matvöruverslunina í bænum og í raun á stóru svæði en rekstraraðilarnir segjast ekki geta rekið hana áfram í taprekstri að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

„Það er mjög góð þjónusta á Egilsstöðum og hörð samkeppni í verslunarrekstri þar sem Borgarfjörður er ekki undanskilinn,“ segir Arngrímur og bendir á að sama þróun eigi sér stað á höfuðborgarsvæðinu. „Það er eðlilegt að fólk leiti í þær verslanir sem bjóða upp á besta verðið og vöruframboðið.“

Fyrir tveimur árum síðan tók Arngrímur og hópur heimafólks við rekstri verslunarinnar í bænum eftir að erfiðlega gekk að manna vaktir í versluninni sem Samkaup rak. „Það má segja að þetta sé misheppnuð tilraun ef menn vilja orða það þannig,“ segir Arngrímur. „Þetta er auðvitað leiðinlegt og grautfúlt, en við getum ekki haldið þessu áfram.“

Bergvin Snær Andrésson er einn þeirra íbúa á Borgarfirði eystra sem lokunin mun hafa mikil áhrif á, enda eru 70 kílómetrar yfir á Egilsstaði þar sem næsta verslun er.

„Maður hleypur ekki út í búð og kaupir mjólk núna,“ segir Bergvin, en hann segir malarveginn yfir Vatnsskarð vera illfæran og þungfæran á veturna og stundum jafnvel lokaðan.„Við erum ekki með heilbrigðisþjónustu og þurfum að sækja hana til Egilsstaða líka. Svo þurfti að skerða þjónustu Póstsins svo það er ekki einu sinni pósthús hér. Það er í raun ekkert eftir hér nema banki.“

Landsbankinn starfrækir útibú í bænum, sem formlega ber nafnið Bakkagerði, og búa þar um 100 íbúar, en í Borgarfjarðarhreppi öllum búa samtals 135 manns samkvæmt manntali 2016.