Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka ávarpaði aðalfund bankans sem stendur nú yfir. Í máli Friðriks kemur meðal annars fram að Íslandsbanki hafi greitt 10,2 milljarða í skatta árið 2016 og þar af hafi tekjuskattur numið 5,2 milljörðum og að sérstakur bankaskattur hafi numið 2,8 milljörðum.

„Sérstakur bankaskattur nam 2,8 milljörðum en sá skattur var tímabundin ráðstöfun til að fjármagna leiðréttingu íslenska ríkisins á húsnæðislánum. Talið er að leiðréttingin hafi kostað um 80 milljarða króna og því hefur sértæk skattlagning á fjármálageirann ásamt stöðugleikaframlagi slitabúa þegar skilað þeirri upphæð og gott betur,“ segir Friðrik. Hann vísar til nýlegs rits Samtaka fjármálafyrirtækja þar sem að fram kom að skattar á borð við bankaskattinn rýra eignarhlut íslenska ríkisins í fjármálakerfinu um 150 milljarða að minnsta kosti. Hann segir að skattur lækki arðsemi bankans um 3 prósentustig. Því telur hann að hingað til hafi þessi skattlagning ekki skilað sér í verðlagningu til neytenda.

„Ekkert réttlætir bankaskattinn lengur. Stjórnvöld verða því að afnema hann eða lækka verulega. Það er afar mikilvægt að gefa fjárfestum vissu um þróunina á skatthlutfallinu. Annars mun þessi skattur hafa veruleg áhrif á möguleika á sölu bankans og það verð sem ríkið gæti fengið fyrir hann. Þar að auki rýrir skatturinn verulega samkeppnismöguleika íslensku bankanna,“ bætir hann við.