Seðlabankinn gaf út nóvemberhefti Peningamála á miðvikudaginn, en þar gerir bankinn grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Þar kemur fram að snörp leiðrétting á húsnæðisverði sé ólíkleg, nema í samhengi við utanaðkomandi efnahagsáfall.

Raunverð húsnæðis hefur hækkað álíka mikið frá árinu 2012 og á tímabilinu 2003 til 2007. Grundvöllur hækkunarinnar nú er þó allt annar en þá. Núverandi hækkunarskeið fer samfara mikilli hækkun ráðstöfunartekna, án þess að á bak við hana sé hröð aukning skulda, fjármagnaðri með erlendu lánsfé, sem einkenndi fyrra skeiðið.

Í Peningamálum segir: „Hið ólíka samspil húsnæðisverðs, ráðstöfunartekna og lántöku til húsnæðiskaupa er líklegt til að leika lykilhlutverk í þróun húsnæðisverðs á næstu misserum. Erfitt er að sjá húsnæðisverð hækka áfram með áþekkum hraða og framan af þessu ári án þess að lánveitingar til húsnæðiskaupa taki verulega við sér, sérstaklega í ljósi þess að horfur eru á að framboð af nýju húsnæði aukist töluvert og að hægja muni á vexti ráðstöfunartekna. Að sama skapi er snörp leiðrétting húsnæðisverðs, eins og varð í lok fyrra hækkunarskeiðsins, ólíkleg. Án frekari búhnykkja er því líklegast að áfram muni hægja á hækkun húsnæðisverðs og húsnæðismarkaðurinn leita jafnvægis. Hraðari hjöðnun útflutningsvaxtar […] eða rýrnun viðskiptakjarabata […] gætu hraðað þessari aðlögun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .