Samanburður á verðum á ýmsum vörum milli vöruhúss Costco og annarra verslana er ekki alltaf Costco í vil, jafnvel þó ekki sé gert ráð fyrir ársgjaldinu í vöruhúsið, sem er 4.800 krónur fyrir einstaklinga.

Í gær kostaði til að mynda Bose Soundlink Bluetooth hátalari 21.499 krónur í Costco, en í Elko kostar sami hátalari 19.995 krónur og Philipps 55" smart sjónvarp er á 99.999 í Costco, en sambærileg vara er á 94.995 krónur í Elko að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Costco virðist í flestum tilfellum sem blaðið skoðaði vera með lægra verð en Bónus, en kaupa þarf vöruna í mörgum tilfellum í mun meira magni í Costco, meðan Bónus verðið miðast við að varan sé keypt í stykkjatali.

Pepsi Max á 35 krónur

Verð á til dæmis Panodil hot 500 mg, í tíu bréfum kostar 929 krónur í lyfjaverslun Costco, meðan það kostar 1.459 krónur í Lyf og heilsu.

Ef farið er í gegnum lista vara í Costco annars vegar og öðrum verslunum hins vegar sést að pylsa og gos kostar þar 400 krónur en 700 krónur á Bæjarins bestu. Pepsi Max 33cl kostar 35 krónur en 78 krónur í Bónus, blár Powerade kostar 83 krónur, meðan hann kostar 119 krónur í Bónus.

SS sinnep kostar 299 krónur en 335 krónur í Bónus. Kellogg´s Corn Flakes kostar það sama í Costco og Bónus, eða 475 krónur og 500 mg af vanilluskyri frá MS kostar 349 krónur í Costco en 359 krónur í Bónus.

Levis gallabuxur ódýrari fyrir konur en karla

Einnig má nefna Levi´s 501 gallabuxur á karla, sem kosta nú 6.399 krónur í Costco, meðan þær kosta 11.990 krónur í Levi´s búðinni í Kringlunni. Kvennmannsgallabuxur frá Levi´s kosta þar hins vegar 5.599 krónur að því er Morgunblaðið greinir frá, en svo er hægt að fá karlmannsgallabuxur allt niður í 1.899 krónur.

KitchenAId hrærivél fæst á 51.999 krónur, Bleyjupakki frá Pampers fæst á 2.449, kíló af parmesan osti fæst á 3.399 krónur, þrjú kíló af parmaskinku á 9.999 krónur, Nike peysur á 4.999 krónur og iPhone 7 Plus sími kostar 118.999 krónur en iPhone 7 mun kosta 109.999 krónur og síðan má fá pakka af þremur gleraugum á 2.599 krónur.

Einnig eru ýmsar vörur í boði í Costco sem kannski er ekki hægt að bera saman við aðrar verslanir, og má þar nefna Bluetooth hátalari í formi hundastyttu á 149.999 krónur, risabangsi á 25.499 krónur, stórt útileiktæki fyrir garðinn á 147.999 krónur og bronslituð stór fílastytta á 499.999 krónur.