„Það er alvarlegt að nauðsynlegu viðhaldi leikskólabygginga sé ekki sinnt svo árum skiptir og þeir látnir drabbast niður og ekki brugðist við fyrr en neyðarástand ríkir,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um fréttir þess efnis að viðhaldi húsnæðis leikskóla í borginni sé ábótavant.

„Það gengur ekki upp að börnum og starfsfólki sé boðið upp á heilsuspillandi húsnæði og ekki látnir vita af því eins og gerðist í leikskólanum Kvistaborg þar sem mikil mygla fannst  og mölflugur með þeim afleiðingum að starfsmaður veiktist og neyddist til að hætta.“

Marta segir það ekki ásættanlegt að hvorki starfsmenn né foreldrar voru upplýstir um ástandið á leikskólanum þegar bráðabirgðaviðgerðir fóru fram í vetur.

„Auðvitað eiga allir að geta treyst á það að húsnæði leikskólabarna sé ekki heilsuspillandi,“ segir Marta sem lagt hefur fram fyrirspurn í borgarráði um ástand leikskólabygginga í borginni og hvernig viðhaldi þeirra verði háttað.

„Nú eru margir leikskólar í sumarfríi og það er ekki boðlegt að börnin komi úr fríi áður en búið er að gera við mygluna eins og í Kvistaborg.“