Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að fasteignamarkaðurinn í dag sé augljóslega seljendamarkaður.

„Við fylgjumst mjög grannt með þróuninni," segir Jón Bjarki. „Ég held að það sé ekki hægt að skilgreina þessa verðhreyfingu undanfarið sem bólumyndun því hækkanirnar má réttlæta með undirliggjandi þróun. Ofan á kaupmáttarvöxtinn, sem hefur verið allnokkur þó hann haldi ekki í við fasteignaverð, kemur veruleg lækkun á vöxtum íbúðalána. Við höfum ekki séð að fólk sé að teygja sig lengra í skuldsetningu eða séð fréttir af miklum yfirboðum, sem bæði eru einkenni á bólumyndun."

Væntingar um takmarkað framboð

„Markaðurinn ber samt þessi merki að væntingar um takmarkað framboð séu aðeins farnar að vinda upp á sig," segir Jón Bjarki. „Ég tel mikilvægt að hið opinbera, verktakafyrirtæki og fjármögnunarfyrirtæki, leggist á eitt um að sá ótti fólks að það sé nánast að kaupa síðustu íbúðina á markaðnum nái ekki að magnast upp þannig að ójafnvægi skapist á markaðnum. Það gæti nefnilega gerst ef þessi þróun heldur áfram án þess að brugðist sé við. Nauðsynlegt er að auka framboðið og allar aðstæður til þess að byggja meira virðast vera fyrir hendi. Það væri ekki bara gott fyrir fasteignamarkaðinn heldur líka sem mótvægi við þá efnahagslægð sem við erum í."

Spurður hvort áhrif vaxtalækkana Seðlabankans hafi verið meiri á fasteignamarkaðinn en búist hafi verið við svarar Jón Bjarki: „Já, mun meiri. Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Það voru samt ekki bara vaxtaákvarðanir bankans sem höfðu áhrif heldur líka sú ákvörðun að loka fyrir 30 daga innlánin og sú ákvörðun að beina innlánum Íbúðalánasjóðs út úr Seðlabankanum. Vaxtalækkanirnar eru samt lykilatriði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .