Inga Hlín Pálsdóttir hefur verið forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu frá því að stofan var sett á laggirnar árið 2010. Þar áður starfaði Inga hjá Útflutningsráði Íslands, en hún er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í alþjóðamarkaðssetningu frá University of Strathclyde í Skotlandi.

Inga telur ótímabært að tala um að hér séu of margir ferðamenn og að áreitið sé of mikið. Frægt var þegar Birgitta Jónsdóttir líkti miðbæ Reykjavíkur við Disneyland í breska dagblaðinu Telegraph en Inga svaraði þeim ummælum í sama blaði skömmu síðar. „Við höfum haft samband við fjölmiðla erlendis þegar okkur finnst rangfærslur eiga sér stað og það er eitt af okkar hlutverkum þegar kemur að því að vinna að ímynd og orðspori. Við þurfum að setja umræðuna varðandi fjölgun ferðamanna í samhengi, við erum ekki komin í þennan „massatúrisma“ sem þekkist í öðrum löndum. Við þurfum hins vegar að fara farlega og huga vel að því hvert við erum að fara, en við erum með skýr markmið,“ segir Inga og bendir á að ferðamenn virðist vera mjög ánægðir með dvöl sína á Íslandi. „Ef við berum saman svokallað „Net Promoter Score“ hjá ferðamönnum hér við Noreg og Nýja-Sjáland, sem mælir m.a. ánægju og hvort fólk er tilbúið að mæla með áfangastaðnum, þá skorum við yfir 80 þar á meðan það er 50 í Noregi og 76 í Nýja-Sjálandi. Samkvæmt rannsóknum Ferðamálastofu voru jafnframt 95% ferðamanna ánægðir með ferð sína hingað og yfir 90% segjast ætla að koma aftur, þannig ég er enn ekki komin á þann stað að hafa þessar áhyggjur. Ég hef hins vegar áhyggjur af því hvernig við sjálf á stundum tölum um atvinnugreinina út á við því það myndi enginn stjórnmálamaður eða Íslendingur tala illa um fiskinn í sjónum.“

Markaðs- og kynningarstarf er langhlaup

Skiptir máli að horfa til lengri tíma þegar kemur að ferðaþjónustunni?

„Langtímahugsun skiptir mjög miklu máli, markaðs- og kynningarstarf er langhlaup og við erum að leggja grunninn til framtíðar. Ég myndi vilja sjá okkur geta hugsað miklu lengra fram í tímann þó við þurfum að gera markaðsherferðir og halda okkur í orðræðunni þarna úti. Það gleymist oft að við erum í mjög mikilli samkeppni um ferðamanninn bæði frá öðrum áfangastöðum, flugfélögum og ferðaþjónustufyrirtækjum og það er ekki sjálfgefið að ferðamaðurinn velji Ísland sem sinn næsta áfangastað.“

Finnst þér þú upplifa langtímahugsun hjá þínu sviði?

„Ég held að það gerist ósjálfrátt núna. Það þarf að huga að ferðaþjónustunni þannig að hún verði sjálfbær og hún þarf að vaxa í sátt við náttúruna og samfélagið. Með því að vera í samtalinu við alla aðila erum við að fara í þá áttina. Það er mjög mikilvægt að vinna í takt við þá sýn sem kom fram í „Vegvísi ferðaþjónustunnar“, sem Stjórnstöð ferðamála gaf út fyrir um tveimur árum, og gera það með viðeigandi hagsmunaaðilum. Öll okkar markmið samræmast því sem kemur fram í Vegvísinum, en ég vil gjarna sjá okkur velta því aðeins betur fyrir okkur „Hver er áfangastaðurinn Ísland?“ og ákveða það. Ef við tökum þá ákvörðun getum við markvisst fengið íbúana, fyrirtækin og ferðamennina til að vera á sömu blaðsíðu. Ef við erum sammála um hvar við ætlum að vera getur það haft áhrif á vöruþróunina og þær fjárfestingar sem lagt er í.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkin Tölublöð.