Fjármálaeftirlitið setti í gær reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána. Samkvæmt nýju reglunum sem tóku gildi skal veðsetningarhlutfall vera að hámarki 85% af markaðsverði fasteignar. Þó er tekið fram að fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign verður heimilt að lána allt að 90% af markaðsverði. Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins segir það ekki markmið reglusetningarinnar að stýra verði á markaðnum, heldur fyrst og fremst að efla viðnámsþrótt. Hægt er að kynna sér nýju reglurnar hér.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta sé sett af stað með tiltölulega mildilegum hætti. „Hámarkið er sett það hátt að flest lán lánveitenda rúmast innan þessa marka, eins og staðan er núna,“ segir hann. Hann segir að ein af ástæðunum fyrir því að þetta hámark sé sett á núna er að Fjármálaeftirlitið hefur tekið eftir því í greiningu sinni að lánaskilyrði hafa rýmkað, veðsetningahlutföll hafa hækkað á síðustu misserum og er þetta að sögn Jóns Þórs ein leið til að koma í veg fyrir að staðan versni enn frekar hvað þetta varðar.

Aukin samkeppni á lánamarkaði

Þegar Jón Þór er spurður út í það hvort að þeir hafi óttast það að einhverjir stórir lánveitendur hygðust bjóða lán sem væri nálægt hámarkinu svarar hann: „Það er ekkert tiltekið slíkt. Við höfum séð að það er aukin samkeppni á þessum markaði með tilkomu lífeyrissjóðanna. Það eru nýir aðilar í lánveitingum. Það er kannski helst að bankar hafi viljað veita hærri lán gegn veði til fyrstu kaupenda. Þá er almennt ekki farið hærra en 90% eins og gert er ráð fyrir í reglunum. Þetta er tiltekið í lögum um fasteignalán til neytenda að það skuli taka tillit til fyrstu kaupenda.“

Fjármálaeftirlitið bendir sérstaklega á það að vaxandi misvægi er á milli húsnæðisverðs og annarra efnislegra þátta í tilkynningu sinni og þegar Jón Þór er spurður að því hvort að þetta sé eitthvað sem Fjármálaeftirlitið sé sérstaklega uggandi yfir svarar hann: „Við erum ekki komin á þann stað að það sé komið í óefni, en fasteignaverð hefur hækkað það mikið að líkur á stórri verðlækkun, ef eitthvað alvarlegt gerist, eru ennþá meiri. Þetta eru mjög mikilvægar vísbendingar hvernig þróunin hefur verið á þessu ári,“ bætir hann við.

Að lokum segir hann að Fjármálaeftirlitið ætli að vera áfram vakandi yfir þróuninni og ef það verða einhver frekari bólumyndun á þessum markaði, þá verða þessar reglur endurskoðaðar.