Stærsta líkamsræktarkeðja landsins, World Class, var stofnuð á svipuðum tíma og Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri og einn af eigendum Hreyfingar, var að taka sín fyrstu skref við rekstur líkamsræktarstöðvar. Hún segist ekki líta svo á að Hreyfing sé í beinni samkeppni við World Class, þar sem Hreyfing sé með aðrar áherslur í sínum rekstri.

„Lengi vel var World Class aðeins með eina stöð og samkeppnisumhverfið ekkert í líkingu við það sem er í dag. Nú eru mjög margar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu og grjóthörð samkeppni í gangi á líkamsræktarmarkaðnum.  Það er gott að það ríkir hörð samkeppni, þá eru allir á tánum að reyna að gera sitt besta.

En við  lítum svo á að við séum ekki endilega að keppa við þessar stóru keðjur sem eru í kringum okkur. Við höfum lagt áherslu á að færa okkur aðeins frá dæmigerðu stöðvunum. Við leggjum meiri áherslu á persónulega þjónustu og meiri gæði. Við rekum eina stöð og einbeitum okkur að því alla daga að gera það framúrskarandi vel.

Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma að fara ekki þá leið að verða líkamsræktarkeðja. Í því felast að mörgu leyti aðrar áherslur s.s.  leit að húsnæði, ráðningar starfsmanna o.þ.h. Við höfum meiri áhuga á að vera í þjónustugeiranum og leggjum mikinn metnað í það," segir hún og bætir við:

„Markmið okkar er að viðskiptavinir okkar séu hæstánægðir og við tökum ekki þátt í verðstríði sem myndi fljótt leiða til lakara þjónustustigs. Við hvetjum okkar viðskiptavini til að tengja sig við námskeið, einkaþjálfara eða velja Bestu aðildina hjá okkur þar sem m.a. er innifalið að hafa aðgang að aðstoð frá þjálfara og fá reglulega uppfært æfingakerfi, mælingar og margt fleira.

Auðvitað eru ekki allir þar og margir vilja æfa sjálfstætt og það er besta mál líka, en við höfum séð að þeir sem æfa með þjálfara að einhverju leyti, gefast síður upp og ná betri árangri. En það má segja að hóptímarnir séu grunnurinn okkar, það er okkar sérsvið enda erum við komin þaðan,  í upphafi buðum við eingöngu upp á hóptíma en engan tækjasal.   Við erum með geysilega öfluga hóptímaþjálfara, þá bestu í bænum, segi ég. Hóptímarnir hafa verið okkar sterkasta hlið í 33 ár og ekkert lát á því, enda er sagt að maður sé manns gaman og fólk fær mikla orku út úr því að æfa saman í hóp."

Þá segir Ágústa að Hreyfing sé ekki aðeins að selja aðgang að tækjum og hóptímum heldur þjónustu og aðstoð við að bæta líf, heilsu og líðan.

„Við leggjum metnað í það að hjálpa fólki að ná árangri. En vissulega er samkeppnin mikil og ef stóra myndin er skoðuð þá eru í raun öll form heilsuræktar í beinni og óbeinni samkeppni við okkar,  hlaupahópar úti í bæ og fjölmargir minni aðilar sem bjóða upp á ýmiskonar heilsurækt. En við staðsetjum okkur á þetta þrep og það hefur gengið ljómandi vel. Hluti af gæðaupplifuninni í Hreyfingu er Hreyfing spa, fáar heilsuræktarstöðvar bjóða upp á spaþjónustu og  það er einnig stór partur heildar „premium" upplifuninni."

Hafið þið íhugað það að opna fleiri Hreyfingarstöðvar?

„Nei, við höfum ekki íhugað það sérstaklega. Ég útiloka það ekki alfarið að við munum opna aðra stöð í framtíðinni. Mér þykir það persónulega ekki mjög áhugavert hlutverk fyrir mig að vera sífellt að skima eftir húsnæði til að innrétta og opna nýja stöð í. Mér finnst mjög gaman að vera hér innan um viðskiptavinina og vinna í því alla daga að að þróa og bæta þjónustuframboðið fyrir þá. En hver veit, kannski skiptir maður um skoðun einhvern tímann, ef einhver spennandi tækifæri koma upp á borðið," segir Ágústa.

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið .